Innlent

Nota má síma til að kanna upprunann

Sveinn Arnarsson skrifar
Í kjötvinnslunni hjá Fjallalambi á Kópaskeri.
Í kjötvinnslunni hjá Fjallalambi á Kópaskeri. vísir/pjetur
Fjallalamb á Kópaskeri hefur sett merkingar um uppruna afurðanna á umbúðir sínar í verslunum. Nú geta neytendur skoðað með snjallsíma sínum hvaðan kjötið kemur áður en varan er keypt. Vill fyrirtækið með þessu auka þjónustu við neytendur.

„Þetta verkefni hefur verið í gangi hjá okkur í nokkuð langan tíma,“ segir Björn Víkingur Björnsson, framkvæmdastjóri Fjallalambs. „Nú erum við komin það langt að hægt er að skanna pakkningar á lambakjöti frá okkur og þá getur neytandinn séð hvaðan lambið kemur, lesið sér til um bændurna á bænum og séð myndir af bústörfum.“

Mikið hefur verið rætt um það síðustu árin að auka gagnsæi í ræktun á Íslandi og að rekjanleikinn frá býli til neytandans sé sem bestur.

Björn Víkingur Björnsson, framkvæmdastjóri Fjallalambsvísir/pjetur
Svavar Halldórsson, framkvæmdastjóri Félags sauðfjárbænda, er að vonum ánægður með að þetta verkefni sé loks komið á koppinn. „Við erum afskaplega ánægð með þetta verkefni. Þetta er metnaðarfullt og sýnir að við viljum þróa ræktunina inn í nútímann,“ segir hann og bendir á að sauðfjárbændur séu í sinni ræktun með eitt öflugasta skráningarkerfi í heimi þar sem nákvæmt bókhald sé um hvert einasta lamb. „Og þessum upplýsingum viljum við skila áfram til neytenda.“

Neytendur geta með þessu skoðað í verslunum upplýsingar um býlin, fjölda áa, fjölda dýra sem slátrað var í síðustu sláturtíð og séð meðalfallþunga dilka. Einnig er hægt að lesa sér til um ábúendur og fá myndir af sauðfjárbúunum beint upp í símann. 

Björn Víkingur segir þetta fyrirkomulag einnig hafa þann kost að bændur þurfi að gjöra svo vel að hafa allt í toppstandi á búum sínum.

„Bændur þurfa nú að vera á tánum. Nú er neytandinn nær þér og því veitir þetta miklu meira aðhald, bæði hvað varðar að framleiðslan sé góð sem og að velferð dýra sé í forgangi,“ segir Björn Víkingur.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. júlí




Fleiri fréttir

Sjá meira


×