Innlent

Flugvöllurinn í París rýmdur vegna grunsamlegrar tösku

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/EPA
Hluti flugvallarins Charles de Gaulle í París var rýmdur nú á sjötta tímanum vegna grunsamlegrar tösku í reiðileysi.

Á flugvellinum eru um 180 Íslendingar á vegum ferðaskrifstofunnar Vita en um sérstaka ferð var að ræða vegna knattspyrnuleiks Íslands gegn Frakklandi á EM sem leiknn var í gær á leikvellinum Stade de France í París. Flugið átti að fara í loftið á níunda tímanum að staðartíma eða rétt fyrir sjö að íslenskum tíma.

„Þeir sáu tösku sem þeim fannst grunsamleg,“ segir Guðrún Sigurgeirsdóttir hjá Vita. Hún er sjálf ekki stödd í Frakklandi en er í nánu sambandi við starfsmann ferðaskrifstofunnar sem hélt utan ásamt hópnum.

„Þetta er svolítið sérstakt því að þessi hópur lenti í því sama þegar þau fóru út. Þá hringdi brunakerfið í Leifstöð þannig að það þurfti að rýma völlinn.“

Guðrún bendir á að Frakkar hafi hert öryggisgæslu í landinu vegna Evrópumótsins, sérstaklega vegna hryðjuverkaárásarinnar í höfuðborginni í fyrra.

„Það er engin ógn sem við höfum heyrt af. Þeir sáu þessa grunsamlegu tösku í reiðileysi og þorðu ekki annað en að tékka á því.“

Farþegi sem Vísir ræddi við segir alla tiltölulega rólega en hópurinn bíður frétta fyrir utan flugstöðina. Fluginu mun seinka nokkuð þar sem enn átti eftir að innrita um helming farþeganna. 

Uppfært 18.30:

Farþegunum var rétt í þessu hleypt aftur inn í flugstöðina og mun flugið leggja af stað um hálftíma á eftir áætlun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×