Innlent

Reykvíkingar ársins heiðraðir fyrir ræktunarstarf í Selási

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hjónin Karólína Inga Guðlaugsdóttir og Reinhard Reinhardsson með laxana sem þau veiddu í morgun.
Hjónin Karólína Inga Guðlaugsdóttir og Reinhard Reinhardsson með laxana sem þau veiddu í morgun. vísir/eyþór
Reykvíkingar ársins 2016 eru hjónin Reinhard Reinhardsson og Karólína Inga Guðlaugsdóttir. Þau opnuðu Elliðaárnar í morgun með Degi B. Eggertssyni og landaði Karólína einum stærsta laxi sem veiðst hefur við opnun ánna undanfarin ár.

Hjónin voru tilnefnd fyrir ræktunarstarf sitt í Selásnum en þau keyptu parhús við Viðarás árið 2004. Í tilkynningu frá borginni kemur fram að fljótlega hafi þau farið að græða upp landið fyrir ofan húsið sitt en þar voru aðeins naktir melar.

„Í fyrstu var ástæðan sú að í miklum rigningum vildi aur skríða til úr holtinu fyrir ofan þau ofan í nærliggjandi garða þar á meðal þeirra.  

 

Þau hófu því að planta trjám og binda jarðveginn með gróðri. Ræktunarstarfið vatt upp á sig og nú hafa þau plantað talsverðum skógi frá Viðarásnum niður að Suðurlandsvegi og sjá um að viðhalda talsvert stórri landspildu í fallegri rækt allt í kringum hús sitt. Þetta hafa þau gert í ágætri samvinnu við garðyrkjudeild Reykjavíkurborgar sem hefur oftsinnis gefið þeim plöntur til að gróðursetja. Hjónin hafa þó verið útsjónarsöm og náð sér í afleggjara af trjám sem hefur verið fargað í Sorpu. Þá hafa þau bjargað furutrjám þegar framkvæmt hefur verið í nágrenni við þau, t.a.m. á Hólmsheiði og Norðlingaholti og gróðursett í spildunni. Þarna er nú kominn talsverður skógur með blönduðum trjám sem bæði bætir hljóðvist  og myndar skjól í hverfinu,“ segir í tilkynningu.

Þau Reinhard og Karólína veiddu annars vel í Elliðaánum í morgun ásamt Ásgeiri Heiðari leiðsögumanni sem leiðbeindi þeim við veiðarnar. Þau fengu sitt hvorn laxinn og voru það hvoru tveggja maríulaxar.


Tengdar fréttir

Fyrsti laxinn kominn úr Elliðaánum

Veiði hófst í Elliðaánum í morgun og samkvæmt venju var það Reykvíkingur ársins sem hóf veiðar í ánni en þeir voru tveir þetta árið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×