Innlent

Gagnrýnir niðurstöðu siðanefndar

Höskuldur Kári Schram skrifar
Borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina gagnrýnir niðurstöðu siðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga varðandi aflandsfélög. Hún segir að í niðurstöðunni sé vegið harkalega að Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur oddvita flokksins. Sveinbjörg óskaði í dag eftir áframhaldandi leyfi frá störfum vegna málsins.

Sveinbjörg Birna tengist tveimur aflandsfélögum í Panama og Tortóla samkvæmt þeim upplýsingum sem komu fram í Panamaskjölunum svokölluðu. Bæði félögin voru skráð árið 2007 en þeirra var ekki getið í hagsmunaskráningu Sveinbjargar.

Siðanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga gagnrýnir þetta í áliti sem var unnið að beiðni forsætisnefndar borgarstjórnar. Þar segir meðal annars að eignir í aflandsfélögum beri ekki vott um sterka borgaralega ábyrgð og grafi undan tiltrú almennings á kjörnum fulltrúm.

Sveinbjörg hefur verið í fæðingarorlofi sem lauk í síðustu viku. Í dag óskaði hún eftir áframhaldandi leyfi frá störfum þangað til innri endurskoðun borgarinnar hefur lokið sinni skoðun á málinu.

Fréttastofu hefur ítrekað reynt að ná í Sveinbjörgu í dag og í gær en án árangurs. Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir starfandi oddviti flokksins gagnrýnir hins vegar niðurstöðu siðanefndar og segir hana vera harkalega.

„Það er bara hvernig niðurlagið er í álitinu," segir Guðfinna. "Það var ekki gætt andmælaréttar. Þetta eru félög sem hún átti áður en hún var kjörin í borgarstjórn. Mig minnir að það hafi aldrei verið lagðir neinir peningar inn á þessa reikninga ef ég man þetta rétt,“ segir Guðfinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×