Innlent

Voru fastir úti á rúmsjó í rúma tvo sólarhringa

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Aðfaranótt laugardags festist net í skrúfu skipsins þegar það var statt í um 220 sjómílur vestur af Írlandi.
Aðfaranótt laugardags festist net í skrúfu skipsins þegar það var statt í um 220 sjómílur vestur af Írlandi. Mynd/Skipaþjónusta Íslands
„Þeir urðu fyrir því óhappi að sigla inn í svokallað drauganet sem festist í skrúfunni og skipið varð stopp úti á hafi,“ segir Ægir Arnar Valgeirsson, framkvæmdarstjóri Skipaþjónustu Íslands. Sex manna áhöfn Skipaþjónustunnar hefur setið föst úti á hafi í tvo og hálfan sólarhring á skipinu Togaranum.

Skipið var keypt af Skipaþjónustu Íslands frá Spáni og var áhöfn send til að sækja það í byrjun júní. 

Fram kemur á vef Skipaþjónustunnar að Togarinn sé dráttarbátur, 33,5 metrar að lengd og 8,8 metra breiður, smíðaður í Hull árið 1977, en endurnýjuð í honum vélin 1998. Um er að ræða eitthvert öflugasta togskip sem hér verður við störf, en skipið er sagt með 48 tonna togkraft.

Togarinn lagði af stað til Íslands í byrjun júní. Aðfaranótt laugardags festist net í skrúfu skipsins þegar það var statt í um 220 sjómílur vestur af Írlandi.

„Þetta gerist úti á miðju hafi um nóttina á föstudaginn og það var strax sett saman björgunarteymi. Þetta tekur auðvitað tíma og það tók yfir sólarhring bara að sigla út til að ná í þá. Svo átti eftir að draga skipið í land aftur,” segir Ægir en áhöfnin er loks væntanleg í land í dag. 

„Sem betur fer var gott veður og allir eru í góðum málum. Það ræður auðvitað enginn við þetta og það geta allir lent í þessu miðað við allt ruslið í sjónum. Þeir voru vel búnir og með allt til alls enda leggur enginn af stað öðruvísi.“

Ægir segir ferðina frá Spáni til Íslands hafa verið áætlaða átta daga og að áhöfnin sé spennt að komast heim.

„Ef allt hefði gengið upp hefðu þeir komið til Íslands síðastliðinn sunnudag. Í dag verður athugað með skrúfuna og hún löguð ef þess þarf. Þá verður farið yfir búnaðinn. Ef allt gengur upp leggja þeir af stað heim í dag eða á morgun,” segir Ægir Arnar Valgeirsson.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 13. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×