Innlent

Stjórnendur eiga að vera í takti við aðra

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Ólafía B. Rafnsdóttir
Ólafía B. Rafnsdóttir
Launaþróun æðstu stjórnenda fyrirtækja á að vera í samræmi við almenna launaþróun á vinnumarkaði, að mati VR. Það er einnig mat VR að kaup og kjör æðstu stjórnenda eigi að taka mið af því sem gerist í sambærilegum störfum hjá sambærilegum fyrirtækjum.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Ólafíu B. Rafnsdóttur, formanni VR.

Í yfirlýsingunni segir að sú sé ekki raunin með launakjör og launaþróun framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, sem hafi verið til umfjöllunar í fjölmiðlum síðustu daga. Laun framkvæmdastjórans virðast vera umtalsvert hærri en þekkist í sambærilegum lífeyrissjóðum og virðast hafa tekið hækkunum á síðustu árum langt umfram það sem þekkist á almennum vinnumarkaði.

„VR á fjóra fulltrúa í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Ég hef komið á framfæri við þá áhyggjum félagsins af stöðunni og þeim sjónarmiðum sem ég reifa hér að framan,“ segir í yfirlýsingu Ólafíu.

Hún segir VR telja mikilvægt að stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna skoði reglulega launakjör framkvæmdastjóra sjóðsins til að tryggja að þau séu í takt við þær áherslur sem félagið hafi að leiðarljósi við gerð kjarasamninga fyrir félagsmenn sína. „Það ber að árétta að VR kemur ekki að ákvörðunum um launakjör framkvæmdastjóra eða annarra starfsmanna Lífeyrissjóðs verzlunarmanna en ég hef engu að síður óskað eftir því við fulltrúa félagins í stjórn sjóðsins að þetta verði rætt.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×