Innlent

Sovétmenn með landvinninga í Kollafirði?

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Einhver hefur komið fyrir fána Sovétríkjanna á skeri í Kollafirði.
Einhver hefur komið fyrir fána Sovétríkjanna á skeri í Kollafirði. Mynd/Tómas
Sjófarendur á Kollafirði hafa ef til vill tekið eftir því að við sker eitt skammt undan landi blaktir fáni einn við hún. Þetta er þó ekki hvaða fáni sem er, þetta er fáni hinna sálugu Sovétríkja.

Það var Tómas Kristjánsson sem kom auga á fánann. Hafði hann tekið eftir rauðu flaggi á skerinu á Sjómannadaginn en ekki veitt því frekari athygli fyrr en hann var á siglingu um Kollafjörðinn í gær er hann sá að fáninn var enn á sínum stað.

„Það var varla annað hægt að kíkja á þetta eftir að við sáum rauðan fána blaktandi á skeri nærri Viðey,“ segir Tómas í samtali við Vísi. Hann segir það alveg ljóst að einhver hafi lagt töluverðan metnað í að koma fánanum fyrir.

„Það er búið að bora ofan í klöppina og fáninn er á málmstöng. Þetta er lítið og ómerkilegt sker sem hunderfitt er að komast upp á. Ef að það er öldugangur sé ég ekki fyrir mér að þar sé auðvelt að leggja að á bát. Ætla svo að fara að stökkva þarna upp á með fána og borvél. Það er metnaður,“ segir Tómas.

Ekkert ríki gert tilkall til skersins að sögn Landhelgisgæslunnar

Metnaður er rétta orðið en spurningin sem hlýtur að brenna á mönnum er hver það sé sem standi fyrir þessu? Er einhver að reyna að gera tilkall til skersins? Erfitt er að kenna útsendurum Sovétríkjanna um enda þau ekki lengur til nema í sögubókunum. Þar að auki risu 15 ríki úr rústum Sovétríkjanna.

Landhelgisgæslan sér um lög- og öryggisgæslu á hafinu í kringum Ísland en þegar þangað var leitað fengust þau svör að Sovét-fáninn á skerinu hafi ekki komið inn á borð Landhelgisgæslunnar og að ekkert ríki, Sovétríkin né önnur, hafi gert tilkall til skersins.

Spurningunni er því ósvarað og eru lesendur Vísir hvattir til þess að senda inn svör hafi þeir þau á ritstjorn@visir.is eða í gegnum Facebook-síðu Vísis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×