Innlent

Halldóra verulega ósátt með fyrstu viðbrögð MS vegna aðskotahlutar í Hleðsludrykk

Birgir Olgeirsson skrifar
Halldóra H. Halldórsdóttir með stykkið sem hún fann í Hleðsludrykknum frá MS.
Halldóra H. Halldórsdóttir með stykkið sem hún fann í Hleðsludrykknum frá MS. Vísir/Facebook
 „Ég hef aldrei kvartað yfir neinu svona áður en ég gat ekki setið á mér við þetta,“ segir Halldóra H. Halldórsdóttir sem fann aðskotahlut í Hleðsludrykk frá Mjólkursamsölunni. Halldóra keypti drykkinn á sunnudag og setti fernuna í ísskápinn á heimili sínu. Á fernunni stóð að best væri að neyta vörunnar fyrir 8. júní. Þegar hún ætlaði síðan að drekka Hleðsluna fann hún myglubragð en við nánari skoðun kom innihaldið í ljós. Einhver aðskotahlutur sem átti ekki heima í fernunni. 

„Ég fylltist viðbjóði. Þetta var ógeðslegt á bragðið. Verra en myglubragð.“

Líklegast hráefni sem blandaðist ekki

MS sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins á áðan en í henni segir að aðskotahluturinn hafi verið tekinn til skoðunar innan MS og sýni sent Matís til skoðunar. Að sögn MS staðfestu fyrstu niðurstöður að ekki var um kjöt- eða fiskafurð að ræða. Líklegasta skýringin á þessum tímapunkti að sögn MS er sú að ákveðin hráefni í framleiðslunni hafi ekki leyst nægilega vel upp og orðið að 4-5 cm hlaupkenndu stykki sem mygla myndaðist í.

Sjá einnig: Aðskotahlutur fannst í Hleðslu frá MS: Segja þetta ekki vera kjöt- eða fiskafurð

Talið er að stykkið sé hráefni sem notað er í Hleðslu sem blandaðist ekki nægjanlega vel.
Halldóra er hins vegar ekki sátt við viðbrögð MS. „Þeir eru að segja núna að það séu fyrstu niðurstöðukomnar í hús en sögðu við mig þegar ég mætti að það tæki langan tíma að fá út úr þessu,“ segir Halldóra.

Óblíðar móttökur í MS

Hún sagði á Facebook að hún hefði hlotið óblíðar móttökur þegar hún fór með stykkið í MS. Starfsmaður á gæðasviði MS hafi tekið á móti henni með miklum hroka.

„Það var eins og hann væri fyrir fram búinn að ákveða hvað hann ætlaði að segja,“ segir Halldóra en í yfirlýsingunni sem MS sendi frá sér kom fram að móttökurnar sem Halldóra fékk væru ekki í samræmi við verklag Mjólkursamsölunnar. Baðst MS velvirðingar á því og harmaði málið.

Halldóra segir starfsmann gæðasviðsins hafa sagt stykkið líkjast kjötvöru en það gæti ekki hafa komið frá MS því þeir framleiða hvorki kjöt né fisk.

„Hann skar stykkið fyrir framan mig og sagði sjálfur að þetta liti út eins og kjöt og því gæti þetta ekki komið frá þeim og fór að reyna snúa þessu yfir á mig, að þetta hafi átt að koma frá mér eða fjölskyldu minni.“

Fékk símtal frá forstjóranum sem vill bæta henni þetta upp

Hún segir forstjóra MS, Ara Edwald, hafa sett sig í samband við hana í dag og og hann hafi verið mjög almennilegur. Tjáði Ari Halldóru að fyrstu niðurstöður bentu til þess að aðskotahluturinn væri úr Hleðsludrykknum og að hann ætlaði að hringja aftur í Halldóru eftir viku og vill bæta henni þetta betur upp.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×