Innlent

Aðskotahlutur fannst í Hleðslu frá MS: Segja þetta ekki vera kjöt- eða fiskafurð

Birgir Olgeirsson skrifar
Aðskotahluturinn sem Halldóra fann í Hleðsludrykknum.
Aðskotahluturinn sem Halldóra fann í Hleðsludrykknum. Vísir/Facebook
Fyrstu niðurstöður á rannsókn á aðskotahlut sem fannst í Hleðslufernu frá Mjólkursamsölunni gefa til kynna að ekki sé um kjöt- eða fiskafurð að ræða.

Halldóra H. Halldórsdóttir birti ljósmynd á Facebook-síðu sinni í gær þar sem sjá mátti aðskotahlutinn. Sagði Halldóra að einkennilegt bragð hefði verið af Hleðslu-drykknum, sem er próteindrykkur frá MS. Hún sagðist hafa fundið myglubragð en við nánari eftirgrennslan kom þessi aðskotahlutur í ljós.

MS segir líklegustu útskýringuna vera þá að hráefni í framleiðslunni hafi ekki leyst nægilega vel upp og orðið að fjögurra til fimm sentímetra hlaupkenndu stykki sem mygla myndaðist í. 

Segist MS ætla að fara nákvæmlega yfir verkferla í vinnslurýminu til að tryggja að slíkt endurtaki sig ekki. MS tekur fram að í vinnslurýmum fyrirtækisins er hvorki kjúklinga- né fiskvinnsla. Talið er að um eingangrað tilvik hafi verið að ræða. Innihaldið er ekki hættulegt til neyslu og framleiðslulotan ekki lengur í sölu.

Halldóra kvartaði undan innihaldinu við MS en segir móttökurnar ekki hafa verið blíðar og hún sökuð um lygar. Í tilkynningunni frá MS segir að þær móttökur sem Halldóra fékk hafi ekki verið í samræmi við verklag fyrirtækisins.

Tilkynningin frá MS í heild sinni:

Í tilefni af ábendingu um galla í Hleðslu drykk frá MS

Vegna ábendingar um aðskotahlut í Hleðslu drykk vill MS koma því á framfæri að um leið og ábending barst fyrirtækinu var málið sett í formlega skoðun innan MS og sýni sent Matís til skoðunar. Fyrstu niðurstöður staðfesta að ekki var um kjöt- eða fiskafurðir að ræða. Líklegasta skýringin á þessum tímapunkti er sú að ákveðin hráefni í framleiðslunni hafi ekki leyst nægilega vel upp og orðið að 4-5 cm hlaupkenndu stykki sem mygla myndaðist í.


Farið verður nákvæmlega yfir verkferla í vinnslurýminu til að tryggja að slíkt endurtaki sig ekki.

Vegna ljósmyndar af innihaldi drykkjarins vill MS taka fram að í vinnslurýmum fyrirtækisins er hvorki kjúklinga- né fiskvinnsla. Hvorki kjúklingur né fiskur er notaður sem hráefni í vörur MS. Þetta á við um öll vinnslurými MS, þar með talið svæðið þar sem Hleðslu drykkur er framleiddur. Hráefnin sem notuð eru í vinnslurými Hleðslu eru hágæða íslensk prótein, bragðefni og bindiefni. Talið er að um eingangrað tilvik hafi verið að ræða. Innihaldið er ekki hættulegt til neyslu og framleiðslulotan ekki lengur í sölu. 

MS tekur öllum ábendingum er varða gæði vara fyrirtækisins alvarlega, enda er fyrsta skylda MS að tryggja öryggi og gæði þeirra matvæla sem við framleiðum.

Þá vill MS koma því á framfæri að móttökur þær sem viðskiptavinur fékk þegar hann lét vita af galla í Hleðslu drykknum voru ekki í samræmi við stefnu fyrirtækisins og harmar MS þær og biðst velvirðingar á þeim.

Ari Edwald

Forstjóri Mjólkursamsölunnar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×