Innlent

Launadeila Skema fyrir dómi: „Ég hefði sagt nánast hvað sem er til að losna við þær úr mínu húsi“

Bjarki Ármannsson skrifar
Rakel Sölvadóttir, stofnandi Skema og reKode, í móttöku fyrrnefnda fyrirtækisins í Síðumúla.
Rakel Sölvadóttir, stofnandi Skema og reKode, í móttöku fyrrnefnda fyrirtækisins í Síðumúla. Vísir/GVA
Aðalmeðferð í málum tveggja ungra íslenskra kvenna, Ágústu Fanneyjar Snorradóttur og Söru Rutar Ágústsdóttur, gegn tæknifyrirtækjunum Skema og reKode fór fram við Héraðsdóm Reykjavíkur á þriðjudag.

Ágústa og Sara stefndu Skema fyrir vangoldin laun frá því að þær unnu undir stjórn Rakelar Sölvadóttur, stofnanda Skema, í Bandaríkjunum vorið 2014. Þær fengu aldrei greitt fyrir síðasta mánuðinn sem þær voru þar og telja auk þess að þeim hafi verið sagt upp án uppsagnarfrests sem þær áttu rétt á. Þá var upplifun þeirra af starfinu í Bandaríkjunum mjög slæm.

Tóku upp fundi í leyni

Vísir fjallaði um málið í síðasta mánuði. Þær Ágústa og Sara fluttu út til tæknibæjarins Redmond í Washington-ríki snemma árs 2014 og áttu þar að vinna í fyrsta tæknisetrinu af fimm sem Rakel hugðist koma á fót í Bandaríkjunum undir merkjum reKode. Svo fór að ekkert slíkt tæknisetur opnaði og þeim Ágústu og Söru var sagt upp í maí á fundi á heimili Rakelar.

Meðal annars var fjallað um þennan fund við aðalmeðferðina, en mál þeirra Ágústu og Söru voru þá tekin fyrir á sama tíma. Þá var einnig deilt um það hver munurinn væri á íslenska fyrirtækinu Skema og bandaríska fyrirtækinu reKode og hvort ráðningarsamningur hafi legið fyrir milli kvennanna og annars fyrirtækjanna tveggja.

Líkt og Vísir hefur greint frá, liggja fyrir í málinu hljóðupptökur af fundum þeirra þriggja, meðal annars fundinum þar sem Ágústu og Söru var sagt upp. Ágústa sagði við Vísi í síðasta mánuði að á þessum upptökum gangist Rakel við því að hafa gert við þær Söru gilda samninga sem meðal annars fólu í sér þriggja mánaða uppsagnarfrest, þar sem þær voru að flytja milli landa fyrir starfið, og það að fyrirtækið tæki að sér íbúð þeirra eða bæri kostnaðinn af því að rifta íbúðarsamningum.

Rakel Sölvadóttir, stofnandi Skema.Vísir/Stefán
Rakel bar vitni við aðalmeðferðina og var þar spurð út í ummæli hennar á upptökunni varðandi það að konurnar tvær hefðu átt rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti. Sagði Rakel það þá hafa verið vegna þess að henni hafi staðið ógn af konunum tveimur. 

„Ég vildi losna við þær af heimili mínu, börnin mín voru á leiðinni heim,“ sagði Rakel. „Sara rýkur upp og lemur í borðið rétt fyrir framan mig. Þær voru mjög reiðar og hreint út sagt „aggresífar“ og ég vildi bara losna við þær út.“ 

Stuttu síðar bætti hún við: „Ég hugsa að ég hefði sagt nánast hvað sem er til að losna við þær út úr mínu húsi.“ 

Lögmaður kvennanna benti þá á að Rakel hefði óskað eftir því að fundurinn færi fram heima hjá henni. Þá heyrist ekki á upptökunni að hún sé hrædd við þær. Þórunn Jónsdóttir, þáverandi framkvæmdastjóri Skema, fylgdist með fyrri fundinum í gegnum Skype. Fyrir dómi sagðist Þórunn telja að Sara hefði slegið í borðið en að hún hefði á engum tímapunkti talið Rakel í neinni hættu, þó andrúmsloftið á fundinum hefði vissulega verið þrúgandi. Rakel hitti konurnar á öðrum fundi tveimur dögum síðar. 

Rakel sagði einnig fyrir dómi að henni hefði ekki verið kunnugt um að hljóðupptökur væru til af fundunum fyrr en henni hefðu borist „hótanir“ tengdar þeim. Rakel útskýrði þetta ekki frekar en þegar lögmaður kvennanna spurði hana hvaða hótanir þetta hefðu verið svaraði Rakel: „Þú ættir að vita það. Þú barst hótanir í þrígang fyrir hönd þeirra.“ 

Þær samræður náðu ekki mikið lengra áður en dómari spurði hvort þetta kæmi málinu við og spurningum var hætt. 

Þær Ágústa og Sara áttu að byrja að vinna við það í Redmond að kenna námskeið í forritun og tölvuleiknum Minecraft fyrir börn.Vísir/Getty
Skema eða reKode?

Líkt og fyrr segir, snýr deilan meðal annars að því hver munurinn sé á fyrirtækjunum Skema og reKode og hvort fyrirtækið Ágústa og Sara hafi starfað, ef ekki bæði. Þær hafa stefnt Skema fyrir vangoldin laun en reKode til vara. 

Skema er tæknifyrirtæki sem stofnað var á Íslandi árið 2011 en reKode var stofnað í Bandaríkjunum 2013. Skema er í dag í eigu reKode, hvar Rakel er meirihlutaeigandi. Rakel stofnaði bæði félögin og hefur til skiptis gegn stjórnunarstöðum hjá Skema og reKode. 

Þá tók Þórunn undir það fyrir dómi að Rakel hefði verið andlit Skema á Íslandi á þeim tíma sem Ágústa og Sara unnu hjá henni. Jafnframt segir Þórunn að unnið hafi verið að því á tímapunkti að „re-branda“ fyrirtækið Skema sem reKode. 

Þórunn Jónsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Skema.Vísir/GVA
Þær Ágústa og Sara hittu Rakel í höfuðstöðvum Skema í Háskólanum í Reykjavík, þar sem þær vilja meina að ráðningarsamningur hafi verið munnlega samþykktur. Með vísan til alls þessa, sagði lögmaður þeirra fyrir dómi að óljóst hafi verið hvort fyrirtækið Rakel var að skuldbinda með þeim samningi. 

Konurnar fengu alltaf greitt frá Skema þann tíma sem þær unnu fyrir Rakel og segjast hafa litið á sig sem starfsmenn Skema, en stefndu á að verða fastráðnir starfsmenn reKode þegar það fyrirtæki tæki til starfa í Bandaríkjunum, sem aldrei varð. 

Lögmaður Skema vill aftur á móti meina að enginn ráðningarsamningur, munnlegur eða skriflegur, hafi verið gerður við þær Ágústu og Söru og að ekkert í orðum eða hegðun Rakelar hefði gefið þeim tilefni til þess að halda það. Ljóst væri að þær hefðu ekki verið fastir starfsmenn Skema, heldur verktakar, líkt og sjáist til dæmis á því að þær hafi ekki verið á launaskrá og engan búnað fengið frá fyrirtækinu. 

Þá sé fjarstæðukennt að halda því fram að reKode hafi gert þær tvær að launþegum, enda var önnur þeirra, Ágústa, ekki komin með atvinnuleyfi í Bandaríkjunum fyrr en stuttu áður en þeim var sagt upp. Þá sé þriggja mánaða uppsagnarfrestur, líkt og konurnar segja að hafi verið forsenda ráðningarinnar, ólöglegur í Bandaríkjunum.

Minnisblað sagt hafa fyllt mælinn

Líkt og kom fram í fyrstu frétt Vísis, var konunum sagt upp með vísun í skýrslu um þjálfun þeirra á Íslandi nokkrum mánuðum fyrr. Fyrir dómi útskýrði Rakel þetta nánar og sagðist hún hafa óskað eftir minnisblaði frá Þórunni um það hvernig þær hefðu staðið sig í þjálfuninni eftir að hún hafi séð það á störfum þeirra úti að þær væru ekki starfi sínu vaxnar.

„Ég fékk sjokk,“ sagði Rakel um innihald minnisblaðsins, sem lagt var fram fyrir dómi áður en aðalmeðferðin hófst. Hún segir það hafa lýst vanvirðingu kvennanna og slæmri framkomu og það hefði „fyllt mælinn.“

Þórunn sagðist fyrir dómi hafa skrifað minnisblaðið eftir samtal við einn þeirra starfsmanna sem var yfir þjálfun Ágústu og Söru. Hún hefði sjálf ekki orðið var við það að þær stæðu sig illa í þjálfuninni á Íslandi. Þórunn fór sjálf út til Bandaríkjanna á sínum tíma til að starfa fyrir reKode en sagði upp störfum eftir nokkra mánuði, að hennar sögn vegna samskiptaörðugleika við Rakel.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×