Innlent

Telja sig sviknar af Skema: „Við trúðum að þetta væri einstakt tækifæri“

Bjarki Ármannsson skrifar
Tvær íslenskar konur hafa stefnt tæknifyrirtækinu Skema fyrir vangoldin laun á meðan þær unnu undir stjórn Rakelar Sölvadóttur, stofnanda Skema, í Bandaríkjunum vorið 2014.
Tvær íslenskar konur hafa stefnt tæknifyrirtækinu Skema fyrir vangoldin laun á meðan þær unnu undir stjórn Rakelar Sölvadóttur, stofnanda Skema, í Bandaríkjunum vorið 2014. Vísir
Tvær íslenskar konur hafa stefnt tæknifyrirtækinu Skema fyrir vangoldin laun á meðan þær unnu undir stjórn Rakelar Sölvadóttur, stofnanda Skema, í Bandaríkjunum vorið 2014. Auk þess sem þær fengu síðasta mánuðinn sinn í fullu starfi aldrei greiddan telja þær að þeim hafi verið sagt upp án uppsagnarfrests sem þær áttu rétt á og bornar rangri sök. Upplifun þeirra af starfinu í Bandaríkjunum var sömuleiðis að mörgu leyti mjög slæm.

Þær Ágústa Fanney Snorradóttir og Sara Rut Ágústsdóttir kynntust Rakel fyrst í Los Angeles árið 2012 þar sem þær segja að Rakel hafi lagt til að þær yrðu í sambandi varðandi framtíðarstarf í þeirri borg. Þær höfðu svo samband við Rakel snemma árs 2014, að nýloknu námi, þar sem þær höfðu séð í fjölmiðlum að Rakel hygðist opna fimm tæknisetur í Bandaríkjunum undir merkinu reKode á næsta árinu.

Þær fluttu að ósk Rakelar út til tæknibæjarins Redmond í Washington-ríki, þar sem fyrsta tæknisetrið átti að rísa. Þar áttu þær að byrja að vinna við að kenna námskeið í forritun og á tölvuleikinn Minecraft fyrir börn en Rakel hafði stungið upp á því að þær yrðu þar í eitt ár en tækju svo að sér stjórn næsta tækniseturs í Los Angeles.

„Þetta var alltaf tilgangurinn með flutningunum til Redmond,“ segir Ágústa Fanney. „Hún stakk upp á því að við kæmum þangað út í eitt ár, og það kom skýrt fram í samningunum okkar, en í dag kannast hún við fátt af því sem hún lofaði.“

Ágústa Fanney Snorradóttir.Mynd/Ágústa Fanney
Þeim var mjög brugðið þegar í ljós kom að tæknisetrið sem þær áttu að vinna í var á þessum tímapunkti ekki annað en tóm bygging og engar framkvæmdir hafnar. Ágústa segir það hafa verið í engu samræmi við þær lýsingar sem þær höfðu fengið áður en þær fóru út. Þess má geta að tímasetning flutninganna var frá Rakel komin. 

Þremur mánuðum eftir að þær Ágústa og Sara fluttu til Redmond var þeim sagt upp. Tæknisetrið sem þær áttu að vinna í var þá enn ekki opnað, þær áttu inni laun hjá fyrirtækinu og höfðu til skiptis verið að vinna heima hjá Rakel og í tölvurými í íbúðasamfélagi þeirra við allt annað en til stóð.

Þær Ágústa og Sara voru kallaðar á fund til Rakelar í maí 2014 þar sem til stóð að fara yfir nýja trúnaðaryfirlýsingu og það hvenær þær mættu eiga von á þeim hlunnindum sem tiltekin voru í samningnum. Á fundinum tjáði Rakel þeim að þeim væri báðum sagt upp störfum frá og með þeim deginum þar sem þær hefðu báðar gerst brotlegar í starfi í þjálfuninni á Íslandi nokkrum mánuðum fyrr.

„Við báðum um að fá að vita það hvað í ósköpunum við áttum að hafa gert,“ segir Ágústa. „Hún sagðist hafa fengið skýrslu frá starfsfólkinu á Íslandi sem sá um að þjálfa okkur og að sú skýrsla hefði leitt í ljós að við hefðum ekki verið með nógu gott viðhorf í þjálfuninni. Við höfðum samband við þetta starfsfólk seinna og könnuðum þetta, þau voru aldrei beðin um neitt mat á okkar frammistöðu. Þetta stenst engan veginn og þegar við báðum um að fá þá að laga það sem hún teldi vera að, neitaði hún því.“

Vísir hefur haft samband við þá starfsmenn Skema sem sáu um stærstan hluta þjálfunar Ágústu og Söru. Þeir taka undir það að hafa aldrei verið beðnir um mat á frammistöðu þeirra tveggja, því síður að þeir hafi tekið saman skýrslu um þjálfunina. Þeir segja þær tvær hafa staðið sig mjög vel í þjálfuninni.

Þær Ágústa og Sara áttu að vera í Redmond í Washington-ríki í eitt ár en flytja svo til Los Angeles.Mynd/Ágústa Fanney
Þær Ágústa og Sara voru kallaðar á fund Rakelar ein í einu. Þegar Ágústa var búin að ræða við Rakel og heyrði að hennar sögn yfirmanninn fara með sömu ræðuna yfir Söru, kveikti hún á hljóðupptöku í símanum og gekk inn á fundinn. 

„Ég ætlaði ekki að trúa þessu,“ segir Ágústa. „Rakel talaði í hringi, bar upp á okkur báðar brot í starfi og sagðist ekki ætla að standa við neitt af því sem um var samið. Eina ástæðan fyrir því að ég ýtti á hljóðupptöku var að ég vildi geta sýnt lögfræðingi hvað fór þarna fram. Það var svo augljóslega verið að brjóta á okkur. Í dag er ég mjög þakklát fyrir hljóðupptökuna. Hún er hátt í klukkutími að lengd og segir allt sem segja þarf.“ 

Ágústa segir þær hafa hitt Rakel aftur tveimur dögum síðar og það sé einnig til upptaka af þeim fundi. Þar hafi Rakel dregið brotin til baka og sagst vera að slíta samningi þeirra en ætla ekki að gangast við skilmálum.

Báðar þessar hljóðupptökur hafa verið lagðar fram fyrir dómi í málinu þó Skema hafi farið fram á að það yrði ekki leyft. Að sögn Ágústu, heyrist Rakel á upptökunum gangast við því að hafa gert við þær gilda samninga sem meðal annars fólu í sér þriggja mánaða uppsagnarfrest, þar sem þær voru að flytja milli landa fyrir starfið, og það að fyrirtækið tæki að sér íbúð þeirra Ágústu og Söru eða bæri kostnaðinn af því að rifta íbúðarsamningnum.

Ágústa og Sara höfðu samband við lögfræðing í kjölfar uppsagnarinnar og fer aðalmeðferð í máli þeirra gegn Skema fram í næsta mánuði. Aðalmeðferðinni hefur tvívegis verið frestað að ósk Skema, auk þess sem Skema reyndi án árangurs að fá því vísað frá dómi í desember síðastliðnum. Að sögn Ágústu, var það um svipað leyti og Rakel hafði verið gert kunnugt um það að til væri hljóðupptaka af fundum þeirra.

Deilan fyrir dómi snýr meðal annars að því hver munurinn sé, ef einhver, á fyrirtækjunum Skema og reKode. Rakel heldur því fram að um sé að ræða aðskilin fyrirtæki og að þær Ágústa og Sara eigi að fara í mál við reKode en ekki Skema. Á vefsíðu Skema á ensku er talað um fyrirtækið sem reKode Iceland. Á íslensku síðunni er reKode Education sagt bandarískt fyrirtæki sem „spratt upp úr“ hinu íslenska fyrirtæki Skema. 

Rakel Sölvadóttir í móttöku Skema í Síðumúla, þar sem merki reKode blasir við. Vísir/GVA
Ágústa segir þær Söru hafa ráðið sig til starfa hjá Skema, ávallt fengið greiðslur sínar þaðan og hafa átt að verða að starfsmönnum reKode þegar það fyrirtæki tæki til starfa í Bandaríkjunum. Auk þess hafi Skema síðar átt að taka upp heitið reKode, samkvæmt þeim upplýsingum sem þær fengu. 

„Við fengum aldrei greitt frá reKode og það var búið að ræða sérstaklega við okkur um að þar sem opnun tæknisetursins var ítrekað frestað, myndum við áfram tilheyra Skema að minnsta kosti út allt sumarið,“ segir Ágústa.  

Vísi er kunnugt um fleiri fyrrverandi starfsmenn Skema sem segjast hafa lent upp á kant við fyrirtækið í samninga- og kjaramálum.

Rakel Sölvadóttir, stofnandi Skema.Vísir/Stefán
Rakel Sölvadóttir vill takmarkað tjá sig um málið og ber fyrir sig trúnaði við starfsfólk sitt. Hún segir það þó klárt mál að málið hefði ekki átt að taka fyrir í íslensku réttarkerfi, þar sem það snúi að bandarísku félagi.

„ReKode er amerískt félag í húð og hár, Skema er hins vegar íslenskt félag,“ segir Rakel. „ReKode er semsagt móðurfélag Skema, skráð og rekið í Bandaríkjunum.“

Rakel segir að reKode hafi staðið við alla þá samninga sem gerðir voru við þær Ágústu og Söru sem fyrirtækið gat staðið við, „í lagalegum skilningi.“ Hún hafi þó ekki fyrir venju að tala um mál einstakra starfsmanna og vilji því ekki útskýra það nánar. Gögn sem snúi að uppsögninni, þeirra á meðal umrædd skýrsla, verði lögð fram og tekin fyrir í réttarsal.

„Mér þykir mjög leitt að viðkomandi aðilar telji sig þurfa að taka málið fyrir í fjölmiðlum en ekki bara bíða og sæta því hvernig réttarkerfið tekur á málinu,“ segir Rakel. „Yfirleitt er þetta merki um að fólk sé komið svolítið í þrot, þá leitar það þessara leiða. Það er bara sorglegt.“

Ágústa segir Rakel hafa sett þær Söru í aðstæður sem hafi ekki boðið upp á að þær gætu unnið þá vinnu sem samið var um að þær myndu vinna. Þeim hafi verið sagt að tæknisetrið í Redmond myndi opna örfáum vikum eftir flutninga, en það gerði það aldrei. Þeim hafi því þótt það mjög leitt að heyra hana segja að þær hafi ekki verið starfi sínu vaxnar. 

„Við komum þarna út til að vinna í glæsilegu tæknisetri sem leit aldrei dagsins ljós en Rakel hélt okkur alltaf í þeirri trú að þetta væri handan við hornið,“ segir Ágústa. „Þess vegna lögðum við allt sem við áttum í að koma upp nýju heimili þarna, sem var mjög kostnaðarsamt. Á þessum tíma vorum við í fullu starfi, gerðum allt sem við gátum til að hjálpa henni að koma setrinu af stað, gengum í hin ýmsu verkefni og sinntum öllu því sem okkur var falið. Þessar ásakanir í lokin um að við höfum gerst brotlegar í starfi fóru alveg með okkur og þetta er búið að valda okkur mikilli vanlíðan. Það er alls ekki auðvelt að burðast með svona ásakanir á bakinu en það góða er að við vitum að þetta stenst engan veginn.“

Ágústa segir málið alls ekki snúast eingöngu um peninga, heldur vilji þær líka sýna fram á að meintar ásakanir Rakelar eigi ekki rétt á sér.

„Við vonum líka að þetta komi í veg fyrir að hún haldi áfram að koma svona fram við fólk. Við höfðum meira að segja sjálfar verið varaðar við henni áður en við fluttum út af hennar eigin starfsmanni, sem sagði okkur frá fleiri starfsmönnum sem hún kom svipað fram við, en við ákváðum að dæma hana ekki eftir því, því við trúðum því að þetta væri einstakt tækifæri.“ ​

Aðalmeðferð í máli þeirra Ágústu og Söru gegn Skema fer fram þann 10. maí næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×