Innlent

Þolandi þorir ekki enn að fara í skólann

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Stúlkan hlaut meiðsl á baki og hálsi og var rispuð og marin eftir árásina. Myndband af atvikinu fór víða á samfélagsmiðlunum og vakti óhug.
Stúlkan hlaut meiðsl á baki og hálsi og var rispuð og marin eftir árásina. Myndband af atvikinu fór víða á samfélagsmiðlunum og vakti óhug. NordicPhotos/Getty
Foreldrar unglingsstúlku sem varð fyrir líkamsárás á lóð Langholtsskóla í síðustu viku segja hana ekki enn hafa mætt í skólann, eða allt frá því fyrir páskafrí.

Þau hafa gagnrýnt úrræðaleysi Austurbæjarskóla, sem stúlkan gengur í, vegna langvarandi eineltis sem aðrir nemendur skólans leggja dóttur þeirra í. Þau segja stjórnendur skólans ekki hafa sett sig í samband við þau frá því að árásin var gerð.

Líkamsárásin telst upplýst hjá lögreglu. Þrjár stúlkur eru gerendur, tvær eru ósakhæfar og því var mál þeirra sent til barnaverndarnefnda en ein stúlka er sakhæf og liggur mál hennar á borði lögreglu. Ekki fengust upplýsingar hjá skólayfirvöldum um hvernig tekið yrði á málum innan skólans en hvorki skólastjóri Austurbæjarskóla né upplýsingafulltrúi skóla- og frístundasviðs geta tjáð sig um einstök mál.

Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs


Skóla- og frístundaráð samþykkti á fundi sínum á þriðjudag að óháður aðili yrði fenginn til að fara yfir verkferla vegna eineltis og samskiptavanda barna. Skúli Helgason, formaður ráðsins, segir atvikið hafa verið áfall en að þessi ákvörðun sé ekki tekin í vantrausti á kerfið eins og það er.

„Það er mjög mikilvægt að viðhalda trausti og skapa traust. Því viljum við skoða ferlana og athuga hvað við getum gert betur.“

Þarf að vinna með gerendur

Vanda Sigurgeirsdóttir er ráðgjafi í eineltismálum og rannsakar sérstaklega eineltismál í doktorsrannsókn sinni. Hún segir skólayfirvöld almennt vinna flott starf að mörgu leyti og að foreldrar séu orðnir mun meðvitaðri um einelti. Aftur á móti séu nokkur atriði sem þurfi að bæta.

„Inngripin eru ekki nógu langvarandi og ítarleg. Það þarf að vinna meira með hópinn og sérstaklega þarf að vinna lengur með gerendur. Það dugar ekki að tala einu sinni eða tvisvar við þá og meira að segja getur það gert eineltið verra. Það þarf að lágmarki tíu skipta samskiptavinnu með gerendum.“

Vanda segir afar mikilvægt að beina frekari sjónum að gerendum. Því án gerenda séu vissulega engir þolendur. Hún segir að hægt sé að vinna með hegðun gerenda strax í leikskóla.



Vanda segir inngripin þurfa að vera ítarlegri og lengri. Gerendur þurfi til að mynda að fara í fleiri viðtöl hjá skólastjórnendum.Vísir/daníel
„Það er hægt að koma auga á þessa hegðun mjög snemma og það þarf að vinna með félagsfærni og vináttuþjálfun þeirra barna. Það er ekki nóg að kenna þeim fallegu orðin, eins og vináttu og tillitsemi, það þarf að þjálfa þau í hegðuninni. Ef maður nær að breyta þessari hegðun við ungan aldur þá sparast heilmikið. Við spörum sársauka þolenda og fjölskyldna þeirra, tíma skólakerfisins og annarra kerfa samfélagsins. Því rannsóknir sýna að mörgum gerendum líður verr, þeir eru með kvíða og þunglyndi og leita í andfélagslega hegðun, fara í afbrot, neyslu og beita ofbeldi.

Vanda segir mikilvægt að muna eftir þessum atriðum þegar alvarleg atvik koma upp.

„Við megum ekki gleyma að gerendur eru líka börn og auðvitað þyrfti að hjálpa þeim áður en eitthvað svona alvarlegt gerist.“



Kennarar kalla eftir fræðslu

Í rannsókn Sjafnar Kristjánsdóttur á mati kennara á fræðslu og þjálfun í eineltismálum í kennaranámi, frá árinu 2011, kemur skýrt fram að kennarar vilja fá meiri fræðslu og þjálfun í því að bregðast við og takast á við einelti.

Nær öllum þátttakendum rannsóknarinnar fannst vanta sérhæfða kennslu um eineltismál í kennaranámi. Eingöngu er boðið upp á valáfanga um einelti í náminu. Því sögðust margir vera illa undirbúnir til að takast á við eineltismál í starfi sínu sem kennarar.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 13. maí




Fleiri fréttir

Sjá meira


×