Innlent

Fjórðungur landsmanna hefur frestað læknisþjónustu

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Ástæðan meðal annars kostnaður og tímaleysi.
Ástæðan meðal annars kostnaður og tímaleysi. vísir/völundur
Tæplega fjórðungur landsmanna, eða um 21,8 prósent, hefur frestað því að sækja sér læknisþjónustu sem þörf var fyrir. Ástæðurnar eru meðal annars kostnaður, tímaleysi eða að fólk vissi ekki til hvaða læknis ætti að leita.

Þetta kemur fram í könnun Rúnars Vilhjálmssonar, prófessors í félagsfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Hann fjallaði um niðurstöður könnunarinnar á málþingi sem BSRB og ASÍ stóðu fyrir fyrr í vikunni.

Könnunin var gerð á síðasta ári. Þátttakendur voru spurðir hvort þeir hefðu frestað læknisþjónustu sem þörf hafi verið fyrir síðustu sex mánuði á undan. Alls sögðust 21,8 prósent hafa gert það, en það er svipað hlutfall og árið 2006 þegar 21,7 prósent sögðust hafa frestað því að leita sér lækninga í sambærilegri könnun.

Árið 2006 nefndu 30 prósent þeirra sem sögðust hafa frestað læknisheimsókn að ástæðan væri kostnaður. Í könnuninni í fyrra sögðu rúmlega 41 prósent kostnaðinn ástæðuna.

Rúnar kannaði einnig meðalútgjöld íslenskra heimila vegna heilbrigðisþjónustu. Útgjöldin til þessa málaflokks voru að meðaltali tæpar 156 þúsund krónur á ári á árinu 2014. Árið 2006 eyddi heimilið um 174 þúsund krónum í þjónustuna, að sögn Rúnars.

Hann segir ákveðnar skýringar liggja að baki. Til dæmis eyði fólk mun lægri upphæðum í tannlæknaþjónustu, og tæki og vörur aðrar en lyf sem keypt eru í lyfjaverslunum. Þá segi þetta ekki alla söguna, þar sem rauntekjur heimilanna hafi lækkað mikið eftir árið 2008.

Nánar má lesa um rannsókn Rúnars hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×