Innlent

Meginþorra stöðugleikaframlaga komið í verð fyrir árslok

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra vísir/anton brink
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir að meginþorri þeirra eigna sem ríkið fær í gegnum stöðugleikaframlög kröfuhafa föllnu bankanna verði komið í verð fyrir árslok. Í nefndaráliti með breytingartillögu laga sem kváðu á um stofnun félagsins kom fram að áætlað væri að einkahlutafélag sem heldur utan um eignirnar og sölu þeirra myndi ná að fullnusta 80 prósent verðmæta innan 18 mánaða.

Búið er að stofna einkahlutafélagið og skipa því stjórn, en Bjarni greinir frá þessu í færslu á Facebook-síðu sinni. Í gærkvöldi var greint frá því í frétt RÚV að Bjarni myndi sjálfur gegna stjórnarformennsku í félaginu. Það reyndist ekki rétt og gagnrýnir fjármálaráðherra fréttaflutning af málinu:

„Í fyrsta lagi, þetta er löngu afgreitt mál á Alþingi. Undarleg fréttamennska nokkrum vikum síðar aö fara að túlka lagatextann í einhverju tómarúmi (og komast að rangri niðurstöðu). Einföld fyrirspurn hefði afgreitt málið.

[...]

Í þriðja lagi, vonandi læra einhverjir af þessu að éta ekki umhugsunarlaust upp eftir öðrum (þmt RÚV) og kveða í beinu framhaldi upp dóma. Ég sé að þetta hafa þónokkuð margir gert. Það sem fengist með því væri nefninlega eftirsóknarvert fyrir okkur öll. Betra samfélag.“

Í fyrstu frétt Vísis af málefnum einkahlutafélagsins í morgun kom fram að Bjarni yrði stjórnarformaður þess og var vitnað í frétt RÚV frá því í gærkvöldi. Fréttamenn 365 reyndu ítrekað að ná í fjármálaráðherra í morgun til að fá það staðfest að hann væri í raun stjórnarformaður félagsins en án árangurs. Tilkynning frá fjármálaráðuneytinu þess efnis að Bjarni væri ekki stjórnarformaður barst síðan rétt fyrir hádegi, eða klukkan 11.54.


Tengdar fréttir

Uppfært: Bjarni gegnir ekki formennsku í félaginu

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra mun ekki sinna stjórnarformennsku í nýju einkahlutafélagi sem mun sjá um sölu þeirra eigna ríkisins, annarra en Íslandsbanka, sem til eru komnar af stöðugleikaframlögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×