Innlent

Sextán ára fangelsi fyrir manndráp á Akranesi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ríkissaksóknari hafði farið fram á sextán ára fangelsi yfir Gunnari Erni.
Ríkissaksóknari hafði farið fram á sextán ára fangelsi yfir Gunnari Erni. Vísir/gva
Gunnar Örn Arnarson var í Héraðsdómi Vesturlands í Borgarnesi í morgun dæmdur í sextán ára fangelsi fyrir að hafa orðið Karli Birgi Þórðarsyni að bana í heimahúsi á Akranesi föstudaginn 2. október í fyrra. Embætti ríkissaksóknara hafði farið fram á sextán ára fangelsi yfir Gunnari sem neitaði sök.

Gunnar var dæmdur fyrir að hafa föstudaginn 2. október í fyrra svipt Karl Birgi lífi með kyrkingu með því að herða að hálsi hans með höndunum og með því að bregða beltisól og fatareim um hálsinn á honum og herða að. Þar með talið með því að binda hnút á reimina svo hún losnaði ekki frá hálsinum, og stuttu síðar með því að bregða reiminni að nýju um hálsinn á Karli Birgi og herða að, eftir að endurlífgunartilraunir voru hafnar.

Sjá einnig:„Sæl elskan, hann er dauður“

Afleiðingarnar af þessum verknaði voru þær, að því er segir í ákæru, að blæðing varð inn á vöðva framan við barkakýli, tungubein brotnaði vinstra megin, þrenging varð á öndunarvegi og súrefnisflæði til heila stöðvaðist og hann missti meðvitund. Miðtaugakerfið hætti að starfa og varð Karl Birgir fyrir alvarlegum heilaskaða sem leiddi til heiladauða. Hann komst ekki aftur til meðvitundar og lést fimm dögum síðar.

Systkini Karls Birgis fóru fram á samanlagt níu milljónir króna í miskabætur. Þá var einnig lögð fram miskabótakrafa af hálfu sambýliskonu hins látna. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að Gunnar skyldi greiða sambýliskonunni 800 þúsund krónur í bætur en aðrar bætur sneru aðeins að útfararkostnaði.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×