Innlent

Ökumaður grunaður um ölvun við akstur var með fimm ára son sinn í bílnum

Birgir Olgeirsson skrifar
Var ættingi fenginn til að sækja drenginn.
Var ættingi fenginn til að sækja drenginn. Vísir/Hari
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði ökumann í Flatahrauni í Hafnarfirði rétt eftir klukkan tíu í gærkvöldi en sá var grunaður um ölvun við akstur. Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að fimm ára sonur ökumannsins var farþegi í bifreiðinni og var ættingi fenginn til að sækja drenginn. Var ökumaðurinn látinn laus að lokinni upplýsinga- og blóðsýnatöku.

Rétt eftir miðnætti í nótt hafði lögreglan afskipti af fjórum sautján ára gömlum piltum í Ármúla vegna vörslu fíkniefna. Var málið afgreitt með aðkomu foreldra.

Rétt fyrir klukkan eitt í nótt handtók lögreglan mann sem var ofurölvi í miðborg Reykjavíkur. Var hann vistaður í fangageymslu þar til ástand lagast.

Þegar klukkuna vantaði sex mínútur í tvö í nótt barst lögreglu tilkynning um mann sem hafði dottið ill á gangstétt við Hverfisgötu nærri stjórnarráðshúsinu. Maðurinn skarst ill á hendi og var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítala Íslands.

Á þriðja tímanum í nótt var maður í annarlegu ástandi handtekinn í Skeifunni þar sem hann var til vandræða. Hann var vistaður í fangageymslu á meðan ástand hans batnar.

Þegar klukkuna vantaði sjö mínútur í þrjú í nótt var maður í annarlegu ástandi handtekinn á heimili í austurbæ Reykjavíkur þar sem hann var gestkomandi. Var hann grunaður um líkamsárás og eignaspjöll. Hann var vistaður í fangageymslu meðan ástand hans lagast og hægt verður að ræða við hann.

Um klukkan fjögur í nótt var tilkynnt um líkamsárás í Austurstræti en gerandinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×