Viðbragðsaðilar og almannavarnir á Suðurlandi munu halda stóra hópsslysaæfingu á sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 21. apríl.
Æfingin verður haldin við gömlu Þjórsárbrúna og hefst hún um kl 11.00. Þar verður líkt eftir því að rúta og fólksbíll lendi í árekstri og um fimmtíu manns slasist.
Víðir Reynisson, lögreglufulltrúi lögreglunnar á Suðurlandi sem hefur yfirumsjón með æfingunni, segir að um 150 viðbragðsaðilar í Árnessýslu og austur að Hvolsvelli verði boðaðir á æfinguna.
„Stjórnkerfi almannavarna verður virkjað með vettvangsstjórn við slysstað, aðgerðastjórn í björgunarmiðstöðinni á Selfossi og einnig verður samhæfingarstöðin í Skógarhlíð virkjuð,“ segir Víðir. „Markmið æfingarinnar er að reyna á samvinnu og samhæfingu viðbragðsaðila.“
Þyrla Landhelgisgæslunnar mun hugsanlega taka þátt í æfingunni. Strax að henni lokinni segir Víðir að haldinn verði rýnifundur til að draga fram lærdóminn og í framhaldinu tekin saman skýrsla.
