Innlent

Bandaríski flugherinn æfði yfir Íslandi

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Bandaríski flugherinn æfði í dag yfir Íslandi en herinn sinnir loftrýmisgæslu yfir landinu allan aprílmánuð. Um eitt hundrað og fimmtíu liðsmenn bandaríska flughersins komu til landsins til að taka þátt í verkefninu.

„Síðustu daga höfum við verið að gera okkur starfhæf. NATO var hér til að meta getu okkar, viðbragðstíma okkar, við höfum æft samskiptaröð okkar frá því skipun berst um að fara á loft eins fljótt og við getum. Það var verið að prófa þessa getu. “ segir Jeff “Monty“ Beckel, undirofursti í Bandaríska flughernum.

Vera bandaríska hersins hér á landi er í samræmi við loftrýmisáætlun NATO fyrir Ísland. „Þetta eru loftrýmisgæsluverkefni Atlantshafsbandalagsins til að sýna getu Atlantshafsbandalagsins til að hafa hér virka loftrýmisgæslu þegar á þarf að halda. Það er svona sirka þrisvar á ári sem koma hér flugsveitir frá NATO-þjóðunum, “ segir Jón Guðnason framkvæmdastjóri lofthelgi- og öryggissviðs Landhelgisgæslunnar.

Herinn kom með fjórar F-15C orrustuþotur með sér til landsins en slíkar þotur hafa oft verið notaðar af hernum í bardögum. „Við erum með ýmsar gerðir af eldflaugum, við erum með ratsjárstýrðar eldflaugar og hitasæknar eldflaugar. Við berum fjölbreyttar eldflaugar eftir því hvers verkefnið krefst. Loftrýmiseftirlitið hérna snýst um flugvélar sem fara um svæðið, hvort sem þær eru rússneskar eða frá öðrum löndum þá förum við í veg fyrir þær og berum kennsl á ógnina og komum þeim boðum til stjórnstöðvarinnar,“ segir Jeff.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×