Innlent

Vilja kanna þörf og áhuga á vöggugjöf frá ríkinu til verðandi foreldra

Atli Ísleifsson skrifar
Finnski ungbarnakassinn hefur vakið heimsathygli.
Finnski ungbarnakassinn hefur vakið heimsathygli. Mynd/Finland.fi/Anssi Okkonen
Sjö þingmenn úr þremur flokkum hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að skipaður verði starfshópur til að kanna þörf, áhuga, fýsileika og kostnað við að veittur yrði opinber stuðningur við verðandi foreldra í formi vöggugjafar. Slík gjöf myndi innihalda nauðsynjavörur fyrir ungabörn.

Þingmennirnir eru úr Bjartri framtíð, Samfylkingu og Vinstri grænum og er Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, fyrsti flutningsmaður tillögunnar.

Hugmyndin frá Finnlandi

Í greinargerð með tillögunni segir að hugmyndin að barnsburðarpakkanum eigi rót sína að rekja til Finnlands en árið 1937 hóf finnska ríkið að veita verðandi foreldrum styrki.

„Nú geta verðandi foreldrar í Finnlandi valið um að fá peningastyrk eða barnsburðarpakka og er um að ræða viðbót við hefðbundna fæðingarstyrki og fæðingarorlof.“

Róbert Marshall er fyrsti flutningsmaður tillögunnar.Vísir/Ernir
Fjölbreyttur pakki

Pakkinn er endurskoðaður árlega og er ánægja með pakkann reglulega kannaður.

„Barnsburðarpakkinn inniheldur allt sem ungabörn þurfa fyrstu mánuðina, svo sem föt, bleiur, sæng, dýnu, sængurver, samfellur, svefnpoka, útigalla, heilgalla, húfur og vettlinga, sokkabuxur og sokka, buxur og boli, handklæði, naglaklippur, hárbursta, tannbursta, hitamæli fyrir baðvatn, hitamæli fyrir barnið, smekki, lítið nagdót og bók fyrir barnið, auk þess sem kassann utan af vörunum má nýta sem rúm. Pakkinn inniheldur einnig nauðsynjavörur fyrir móður og föður barnsins, svo sem dömubindi, getnaðarvarnir, geirvörtukrem og brjóstapúða. Oftar en ekki eru fötin í pakkanum og kassinn utan um hann hönnuð af finnskum hönnuðum til að styðja við innlenda framleiðslu,“ segir í greinargerðinni.

Kemur foreldrum vel sem eru með lítið á milli handanna

Þá segir að vöggugjöf af þessum toga sé táknræn með þeim hætti að hún býður hvern nýjan þjóðfélagsþegn velkominn. Gjöfin inniheldi það helsta sem hann þurfi fyrstu mánuði ævinnar og snúi fyrst og fremst að rétti barnsins.

„Með þessu móti mætti í senn tryggja nýfæddum börnum nauðsynlegan útbúnað og spara nýbökuðum foreldrum bæði fyrir­höfn og peninga sem kæmi sér sérstaklega vel fyrir þá foreldra sem hafa lítið á milli handanna. Með þessari framkvæmd er einnig auðveldara en ella að hafa eftirlit með því að vörur sem ungabörn nota uppfylli öryggiskröfur og séu ekki heilsuspillandi.“

Samkvæmt tillögunni á hópurinn að gera tillögu að nánari útfærslu og skila skýrslu með niðurstöðum fyrir 1. október næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×