Innlent

Margfalt dýrara að leita á bráðamóttöku

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðbjörg Pálsdóttir hjúkrunarfræðingur segir brýnt að upplýsa ferðamenn um hvert er best að leita.
Guðbjörg Pálsdóttir hjúkrunarfræðingur segir brýnt að upplýsa ferðamenn um hvert er best að leita.
 Álag á bráðamóttöku Landspítalans hefur aukist mikið með auknum ferðamannafjölda. Þetta sýna fyrstu niðurstöður rannsóknar Guðbjargar Pálsdóttur sérfræðings í bráðahjúkrun.

Áætlað er að frá árinu 2001 til og með ársins 2014 hafi 14.303 einstaklingar sem ekki höfðu íslenska kennitölu leitað eftir þjónustu á bráðamóttöku. Fór þeim fjölgandi eftir því sem leið á tímabilið. Mest var aukningin milli ára frá 2009, en þá var árleg aukning 7-13 prósent.

Guðbjörg segir að það þurfi að skrá betur gögn um komu útlendinga og rýna betur í þau. Síðan þurfi að taka höndum saman með ferðaþjónustunni um að bæta þjónustuna við ferðamenn. "Við þurfum líka að beina fólki í réttan farveg og ferðaþjónustan þarf að hafa um það upplýsingar hvert á að leita með hvaða vandamál," segir Guðbjörg. Hún vísar til þess að fjórfalt dýrara sé fyrir ósjúkratryggða ferðamenn að leita á bráðamóttöku Landspítalans en að leita á Læknavaktina og á heilsugæslu. En komugjaldið fyrir ósjúkratryggða á bráðamóttökuna er 56.700 á móti 13.415.

Þá segir Guðbjörg afar brýnt að horfa til forvarna og vísar þar til umræðu liðinna vikna um alvarlegar slysahættur fyrir ferðamenn. "En ég er sjálf búin að vera út úr bænum frá því fyrir helgi og vera bæði á þjóðveginum og Gullfossi og Geysi og það er mjög gott að sjá tækifærin í því hvar við getum bætt okkar þjónustu til erlendra ferðamanna og sérstaklega í formi forvarna."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×