Innlent

Skattgreiðendur greiði ekki fyrir siglingar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Fulltrúar sjálfstæðismanna og framsóknarmanna í borgarráði segjast ekki geta stutt hugmyndir þess eðlis að fjármunir úr borgarsjóði renni til reksturs ferju sem sigli milli Reykjavíkur og Akraness.

Borgarráð samþykkti í síðustu viku að Reykjavíkurborg og Akraneskaupstaður óski eftir rekstraraðila til að taka að sér tilraunaverkefni um beinar siglingar ferju á milli Reykjavíkur og Akraness í sumar.

Rekstraraðilinn geti séð um reglulegar siglingar þrisvar sinnum á dag með 50-100 farþega á milli sveitarfélaganna.

„Mögulegt er að sveitarfélögin taki til athugunar fjárhagslegan stuðning við þann rekstraraðila sem verður valinn,“ segir í auglýsingunni sem samþykkt var að birta.

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks segjast styðja að farið verði í tilraunaverkefni með siglingarnar á þeirri forsendu að fjármunir skattborgara í Reykjavík verði ekki notaðir í verkefnið, enda sé ekki svigrúm til slíks.

„Á sama tíma og verið er að skera niður framlög til stórra málaflokka eins og skólakerfisins og velferðarmála er útilokað að stofnað sé til nýrra útgjalda sem ekkert hafa með reglulega eða lögbundna starfsemi að gera,“ segir í bókun sjálfstæðismannanna.

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins, tók undir með sjálfstæðismönnum.

„Fjárhagsstaða borgarinnar býður ekki upp á að borgin taki þátt í tilraunaverkefni sem þessu ef nota á skattfé borgarbúa í það,“ sagði í bókun hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×