Innlent

Fjárlaganefnd ræðir á opnum fundi hvers vegna 2,5 milljarðar féllu á ríkið við stofnun Arion-banka

Birgir Olgeirsson skrifar
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar.
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar. Vísir
Fulltrúar frá Fjármálaeftirlitinu verða gestir fundar fjárlaganefndar á morgun þar sem farið verður yfir hvers vegna kostnaður upp á 2,5 milljarða féll á ríkissjóð í tengslum við stofnun og endurfjármögnun Arion-banka.

Verður dagskrárliðurinn þar sem fulltrúar FME sitja fyrir svörum opinn fjölmiðlum en að honum loknum mæta fulltrúar fjármálaráðuneytisins á fundinn og hafa fjölmiðlar ekki aðgang að þeim umræðum.

„Reglurnar varðandi  þessa fundi  eru þær að ef ráðuneytisstarfsfólk situr þá,  þá má ekki hafa þá opna,“ segir Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar.

„Við ákváðum hins vegar að fá fulltrúa Fjármálaeftirlitsins á fundinn til að fara yfir þetta því þeir mótmæltu harðlega svörum og útskýringum fjármálaráðuneytisins varðandi þessa gjörninga frá 2009 og við ætlum að gefa fjölmiðlum kost á því að heyra sjónarmið fjármálaeftirlitsins en svo verðum við að loka fundinum þegar embættismennirnir úr fjármálaráðuneytinu koma,“ segir Vigdís.

Morgunblaðið fjallaði um málið í byrjun janúar. Þar hafnaði Fjármálaeftirlitið þeirri skýringu fjármála- og efnahagsráðuneytisins að tafir á vettvangi FME hafi valdið því að ríkissjóður sitji uppi með 2,5 milljarða króna vaxtakostnað í tengslum við stofnun og endurfjármögnun Arion-banka á árunum 2008 til 2010.

Vigdís segir þetta hafa verið skrýtna atburðarás. „2.500 milljónir sem voru gefnar eftir í vaxtaafslátt þegar Arion var stofnaður. Þarna er komið í ljós að þáverandi fjármálaráðherra gaf 2.500 milljóna króna vaxtaafslátt þegar Arion-banki var stofnaður frá ríkinu,“ segir Vigdís.

Fundurinn verður opinn fjölmiðlum frá klukkan 10:00 til 10:45. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×