Innlent

Siðanefnd telur Hringbraut hafa gerst seka um alvarlegt brot

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Sigmundur Ernir Rúnarsson er ristjóri Hringbrautar.
Sigmundur Ernir Rúnarsson er ristjóri Hringbrautar. Vísir/Anton Brink
Siðanefnd blaðamanna hefur úrskurðað að miðillinn Hringbraut og ritstjóri hans, Sigmundur Ernir Rúnarsson, hafi gerst brotlegur við þriðju grein siðareglna Blaðamannafélags Íslands. Siðanefndin telur brotið alvarlegt.

Björn Ingi Hrafnsson eigandi Vefpressunnar ehf. kærði Hringbraut til siðanefndar vegna fréttar á Hringbraut um fjármagn og eign DV og Vefpressunnar og að fjármunir komi frá vinum og ættingjum formanns Framsóknarflokksins.

Umrædd frétt er byggð á grein Ólafs Jóns Sívertsen, pistlahöfundi á Hringbraut, en kærandinn í málinu telur að miðillinn beri ábyrgð á pistlinum.

„Nánast allt sem í henni [greininni] kemur fram er rangt. Heimildarmaður hennar er nafnlaus pistlahöfundur og er með ólíkindum að ritstjórn fjölmiðilsins skuli verða ber að svo óvönduðum vinnubrögðum,“ segir í kærunni.

Í svari ritstjóra Hringbrautar til siðanefndar kemur fram að einungis hafi verið fjallað um vangaveltur pistlahöfundar um eignarhaldið en aldrei hafi neitt verið fullyrt og að höfundur skrifi undir dulnefni.

„Fréttin er eingöngu byggð á vangaveltum úr tilvitnaðri grein Ólafs Jóns Sívertsen og ekki nefnt að um tilbúna persónu sé að ræða. Persónan er ekki kynnt til sögunnar sem slík, heldur mega lesendur ranglega ætla að um raunverulegan heimildarmann sé að ræða,“ segir í úrskurðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×