Innlent

Lyftumótor brann líklegast yfir á Reykjalundi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bílar frá öllum stöðvum slökkviliðsins voru sendir á staðinn.
Bílar frá öllum stöðvum slökkviliðsins voru sendir á staðinn. Vísir/Stefán
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var með mikinn viðbúnað í morgun þegar útkall barst um mögulegan eld á Reykjalundi í Mosfellsbæ. Bílar frá öllum stöðvum slökkviliðsins voru sendir á staðinn en þegar í ljós kom að um minniháttar atvik var að ræða var tveimur bílum snúið við en aðrir tveir fóru á vettvang.

„Þarna hefur að öllum líkindum lyftumótor brunnið yfir svo það kom einhver smá reykur og smá reykjarlykt. Starfsfólk Reykjalundar stóð sig vel í þessum aðstæðum og virkjaði neyðaráætlun fyrir húsið þannig að það var allt rýmt. Allt virkaði því eins og það á að virka þegar svona kemur upp,“ segir Eyþór Leifsson varðstjóri hjá slökkviliðinu í samtali við Vísi.

Hann segir að nú sé einn bíll eftir á staðnum til að ganga endanlega úr skugga um hvað olli reyknum og reykjarlyktinni.

Á Reykjarlundi fer fram alhliða endurhæfing en stofnunin er í eigu SÍBS.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×