Innlent

Tvö ár fyrir nauðgun: Faðir konunnar hélt manninum þar til lögregla mætti á svæðið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Var það mat dómsins að framburður konunnar væri í alla staði trúverðugur, frá upphafi skýr og stöðugur í öllum höfuðatriðum.
Var það mat dómsins að framburður konunnar væri í alla staði trúverðugur, frá upphafi skýr og stöðugur í öllum höfuðatriðum. Vísir/Getty
Fjölskipaður dómur Héraðsdóms Vesturlands hefur dæmt karlmann í tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun. Var hann sakfelldur fyrir að hafa notfært sér að konan, sem dvaldi í foreldrahúsum, gat ekki spornað við samræðinu sökum svefndrunga og mikillar áfengisdrykkju fyrr um kvöldið.

Maðurinn og konan þekktust aðeins lítillega en þau höfðu verið á balli á Vesturlandi fyrr um kvöldið, þann 20. desember 2014. Að loknu ballinu hélt konan heim til sín og sofnaði en síðar um nóttina kom maðurinn ásamt vini sínum, sem var í sambandi við systur konunnar, í húsið.

Fóru þeir inn í herbergi konunnar og grínuðust þeir með að ákærði myndi bara gista hjá stelpunni. Fóru þeir inn í herbergi hennar og tók sá sem var í sambandi með systur konunnar meðal annars mynd af félaga sínum liggjandi í rúminu hjá konunni. Um grín átti að hafa verið að ræða og yfirgaf hann svo herbergið. Hann sendi myndina af þeim liggjandi hlið við hlið á tvo vini sína.

Vaknaði við samræði

Konunni og manninum bar ekki saman um hvað gerðist næst. Maðurinn sagði konuna hafa verið vakandi þegar þeir komu inn í herbergið og myndirnar voru teknar. Þau hafi síðan farið að kyssast, hrósað hvoru öðru og stundað kynmök með samþykki hennar.

Frásögn konunnar er hins vegar á þann veg að hún hafi hreinlega vaknað við það að verið var að eiga við hana samræði og kyssa hana. Hún hafi ekki áttað sig á aðstæðum, aðeins kysst á móti en svo áttað sig á því hvað um var að ræða. Hún hefði orðið mjög hrædd, frosið og hvorki veitt mótspyrnu né kallað á hjálp. Hún átti erfitt með að muna hvernig þessu lauk.

Svo hefði hún staðið upp úr rúminu, klætt sig og farið yfir í herbergi systur sinnar. Þar var systir sín með kærasta sínum og brugðust þau við með því að segja manninum að koma sér í burtu. Á meðan var konan hágrátandi inn í herbergi systur sinnar.

Foreldrarnir vöknuðu

Í hamagangnum vöknuðu foreldrar systranna og hélt faðirinn hinum dæmda þar til lögregluna bar að garði skömmu síðar.

Var það mat dómsins að framburður konunnar væri í alla staði trúverðugur, frá upphafi skýr og stöðugur í öllum höfuðatriðum. Samræmdist framburðurinn vitnisburði annarra og sömuleiðis fái hann ríkan stuðning í framburði sálfræðings. Á hinn bóginn var framburður mannsins á skjön við framburð vinar hans til dæmis þess efnis að konan hefði verið vakandi þegar þeir komu inn í herergi hennar.

Var maðurinn dæmdur í tveggja ára fangelsi og til að greiða konunni eina milljón króna í bætur. Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Vesturlands fyrr í dag og má lesa hér.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×