Innlent

Dæmdur í gæsluvarðhald: Stal raftækjum, reiðhjóli og hangikjötslæri

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Maðurinn var dæmdur fyrir vopnuð rán og að hafa ógnað fólki með sprautunál.
Maðurinn var dæmdur fyrir vopnuð rán og að hafa ógnað fólki með sprautunál. Vísir/GVA
Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð yfir karlmanni sem grunaður er um fjölmörg brot, meðal annars þjófnað og fíkniefnalagabrot, á árunum 2014 til 2016. Dómurinn telur líkur á að maðurinn haldi brotastarfsemi sinni áfram fái hann að ganga laus.

Innbrot, fíkniefnaneysla og þjófnaður

Síðasta brot mannsins á að hafa átt sér stað síðastliðinn þriðjudag, 4. febrúar. Þá barst lögreglu tilkynning um mann í annarlegu ástand á Laugavegi. Hann hafði stolið sjónvarpi og við leit á honum fannst flugmiði og sjónvarpsfjarstýring. Búið var að spenna upp og brjóta glugga í íbúð í nágrenninu, og játaði maðurinn að hafa brotist þangað inn og tekið fyrrnefnda muni.

Þá er honum jafnframt gefið að sök að hafa stolið ýmsum verkfærum, reiðhjóli, fartölvu, tölvuleikjum, fatnaði og tveimur hangikjötslærum, svo fátt eitt sé nefnt. Hann játar flest brot sín.

Hótaði fólki með sprautunál

Maðurinn á nokkurn sakaferil að baki, fyrir auðgunarbrot og sérrefsilagabrot. Hann hlaut síðast dóm í Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2012 þar sem hann var dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir þrjú vopnuð rán og ránstilraunir. Hann ógnaði starfsfólki verslananna með sprautunál og hótaði að smita það með HIV-veirunni, afhenti það honum ekki peninga.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi manninn í fjögurra vikna gæsluvarðhald, til 1. mars, síðasta þriðjudag. Lögreglustjóri taldi yfirgnæfandi líkur á að maðurinn myndi halda áfram brotastarfsemi færi hann frjáls ferða sinna og taldi því brýnt að hann sæti í gæsluvarðhaldi uns málum hans sé lokið hjá lögreglu.

Dómurinn féllst á þessi rök lögreglustjórans og var maðurinn því, sem fyrr segir, dæmdur í gæsluvarðhald.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×