Innlent

Panamaskjölin gætu skaðað framboð Ólafs Ragnars

Höskuldur Kári Schram skrifar
Bessastaðir
Bessastaðir
Eva Heiða Önnudóttir nýdoktor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands segir líklegt að tenging Dorrit Moussaieff við aflandsfélög í skattaskjólum muni gera það að verkum að það verði erfitt fyrir Ólaf Ragnar Grímsson að auka fylgi sitt í aðdraganda forsetakosninga.

Samkvæmt frétt sem Reykjavík Media birti á mánudag tengist Dorrit fimm bankareikningum hjá HSBC bankanum í Sviss í gegnum fjölskyldu sína og að minnsta kosti tveimur aflandsfélögum. Þýskir og franskir fjölmiðlar hafa fjallað um málið en fréttin byggir meðal annars á Panamaskjölunum.

Í yfirlýsingu sem Dorrit sendi frá sér í dag segist hún aldrei hafa átt bankareikning hjá HSBC og aldrei hafa verið viðskiptavinur þess banka. Þá segist hún ennfremur aldrei hafa rætt um fjármál fjölskyldu sinnar við Ólaf né fengið greiddar arð úr félaginu Jaywick Properties á Bresku jómfrúareyjunum.

Ólafur mælist í könnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis með 45 prósenta fylgi. Í síðustu viku mældist Ólafur með rúmlega 52 prósenta fylgi í könnun MMR.

Eva Heiða Önnudóttir nýdoktor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands segir að þetta mál geti mögulega skaðað framboð Ólafs.

„Ólafur á ennþá eftir að gera grein fyrir sínu máli sem hann mun væntanlega gera á næstu dögum eða vikum. Þetta gæti gert honum erfitt um vik við að auka við sig fylgi. En það mun örugglega velta mjög mikið á því hverju og hvernig hann svarar,“ segir Eva. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×