Innlent

"Verður að koma í ljós hvað ég geri“

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff.
Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff. Mynd/Anton Brink
„Eins og ég segi. Ég er bara staddur þar sem ég er staddur og svo verður að koma í ljós hvað ég geri,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti íslands, í fréttum Stöðvar 2 í kvöld, aðspurður hvort til greina komi að hann ljúki ekki kosningabaráttu sinni, bæði í ljósi mikils fylgis við aðra frambjóðendur, sem og minni óvissu í samfélaginu.

„Þú mátt spyrja eins oft og þú vilt, þú færð alltaf sama svarið, vegna þess að menn verða líka að skilja það að ég hef minn hug og mitt hjarta. Ég þarf líka að hugsa hlutina sjálfur og ég er bara ekki kominn lengra,“ sagði hann.

Sjá einnig:Forsetinn segist hafa verið að tala um fjölskyldu sína á Íslandi

Ólafur sagðist hafa verið farinn að gera ráðstafanir fyrir fyrirhuguð starfslok. Óvæntir atburðir hafi hins vegar orðið til þess að hann ákvað að bjóða sig aftur fram til endurkjörs. „Þessi uppákoma í apríl var mjög óvænt og mjög skyndileg og ekki í samræmi við það sem ég var búinn að gera ráðstafanir að alla aðra mánuði ársins.“

Ólafur Ragnar var meðal annars spurður út í svör sín í viðtali við bandarísku sjónvarpsstöðina CNN í síðasta mánuði þar sem hann neitaði aðkomu Dorritar Moussaieff, eiginkonu sinnar, að aflandsfélögum. Hann sagðist þá verið að svara fyrir eigin fjölskyldu á Íslandi, enda hafi hann engar upplýsingar um fjármál aldraðra foreldra Dorritar.

Samkvæmt Panama-skjölunum svonefndu tengist Dorrit og fjölskylda hennar tveimur aflandsfélögum. Ólafur sagði umfjöllun um tengsl eiginkonu hans við slík félög hvorki hafa skaðað ímynd Íslands, né heldur forsetaembættið sjálft.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×