Innlent

Rúmlega sextíu greinst með RS-sýkingu

Höskuldur Kári Schram skrifar
Sextíu og þrjú börn hafa greinst með RS-sýkingu á Landspítalanum það sem af er þessu ári þar af átján í síðustu viku. Yfirlæknir á Barnaspítala Hringsins segir um árlegan faraldur að ræða sem leggst misilla í börn.

RS-veiran veldur sýkingu í öndunarfærum og getur verið alvarleg fyrir börn og fullorðna með undirliggjandi sjúkdóma. Veiran veldur oft faröldrum hjá ungum börnum og þá aðallega á veturna og á vorin.

Það sem af er þessu ári hafa sextíu og þrjú börn greinst með RS-veirusýkingu á Landspítalanum þar af 32 á síðustu tveimur vikum.

"Þessi árlegi RS-faraldur er kominn í gang og hann virðist vera rúlla vel af stað núna síðustu tvær þrjár vikurnar," segir Ragnar Bjarnason yfirlæknir á Barnaspítala Hringsins.

Ragnar segir að töluvert hafi borið á því að foreldrar séu að koma með börn á Landspítalann og heilsugæslustöðvar. Í flestum tilvikum sé þó um minniháttar sýkingar að ræða.

Hann segir að börn með enga undirliggjandi sjúkdóma jafni sig venjulega fljótt en ráðleggur hins vegar foreldrum að fylgjast vel með einkennum.

"Eiga börnin erfitt með öndun. Eiga þau erfitt með að borða eða taka brjóstið. Ef svo er þá er full ástæða til að láta skoða það," segir Ragnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×