Innlent

„Menn fóru af stað af kappi frekar en forsjá“

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Aftakaveður gekk yfir landið í gær. Rúmlega 300 björgunarsveitarmenn sinntu fjölda hjálparbeiðna víða um land og lokaðist höfuðborgarsvæðið af um tíma í annað sinn í vetur. Þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir bæði Veðurstofunnar og Vegagerðarinnar virðist óveðrið hafa komið mörgum í opna skjöldu.

Á fimmta hundrað ferðalangar voru fastir á Hellisheiði og í uppsveitum Árnessýslu í gærkvöldi. Björgunarfélag Árborgar var fram eftir nóttu að aðstoða fólk í vanda og þurftu sumir að skilja ökutæki sín eftir á Hellisheiði í nótt.

„Það eru náttúrulega margir sem bera ábyrgð þegar svona staða kemur upp. Einstaklingar sem eru á ferðinni sjálfir og ferðaþjónustuaðilar sem selja skipulagðar ferðir,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Selfossi.

Hann segir að í mörgum tilvikum sé um ræða einstaklinga á bílaleigubílum sem ekki hafa aðgang að upplýsingum um færð á vegum á sínu tungumáli.

„Þessi ferðaþjónusta öll sem dynur yfir okkur á meiri þunga á veturna en við höfum áður séð. Þar þurfa yfirvöld að taka sig á að upplýsa betur á þeim tungumálum sem skila sem mestum árangri,“ segir Oddur.

Þá fóru ferðaþjónustufyrirtæki fjölda ferða á Suðurlandi í gær þrátt fyrir viðvaranir um óveður og hundruð ferðamanna urðu strandaglópar í skipulögðum hópferðum. Er það ekki líka á ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækja að fara ekki af stað með fólk í svona veðri?

„Veðurspáin var alveg skýr. Þannig að ég held að menn hafi farið frekar af stað af kappi en forsjá í þetta veður,“ segir Oddur.

Gísli Jens Friðjónsson, forstjóri Hópbíla, sagði í samtali við fréttastofu í dag að málið yrði tekið til skoðunar. Hann gaf þó ekki kost á viðtali enda kveða starfsreglur á um að mál sem þessi skuli leyst innan fyrirtækisins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×