Innlent

Lækka þarf VSK á fatnað auk afnáms tolla

Heimir Már Pétursson skrifar
Framkvæmdastjóri SVÞ segir að það yrði stórt skref til að jafna samkeppnisstöðu íslenskrar fataverslunar að afnema tolla en einnig þurfi að setja fatnað í lægra þrep VSK.
Framkvæmdastjóri SVÞ segir að það yrði stórt skref til að jafna samkeppnisstöðu íslenskrar fataverslunar að afnema tolla en einnig þurfi að setja fatnað í lægra þrep VSK.
Afnám tolla á innflutningi á fatnaði væri stórt skref til að jafna samkeppnisstöðu íslenskrar verslunar með föt en að auki þyrfi að setja fatnað í lægra virðisaukaskattsþrep til að jafna stöðuna að fullu, að mati Samtaka verslunar og þjónustu.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lýsti því yfir við Fréttablaðið að til greina komi að fella niður tolla á innfluttan fatnað til að bæta samkeppnisstöðu íslenskrar verslunar. En í dag kaupa Íslendingar allt að 45 prósent af fatnaði sínum ýmist í gegnum útlendar netverslanir eða í verslunarferðum til útlanda, að sögn Andrésar Magnússonar framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu. Samtökin fagni því yfirlýsingu fjármálaráðherra.

„Vegna þess að við höfum þráfaldlega bent á það hversu samkeppnisstaða innlendrar fataverslunar og skóverslunar er erfið og hefur verið allt frá hruni ef svo má segja,“ segir Andrés.

Íslensk fataverslun búi við mjög óhagstætt skattaumhverfi. Þannig sé stór hluti fatnaðar sem fluttur sé hingað til lands í gegnum Evrópusambandið frá ríkjum utan sambandsins í raun tvítollaður þar sem Evrópusambandið leggi á 15 prósenta toll og síðan komi 15 prósenta tollur ofan á það verð hér á Íslandi.

„Þannig að þegar þetta er tekið saman, 30 prósenta tollur plús tiltölulega hátt virðisaukaskattsstig, er samkeppnisstaða þessarar greinar afar erfið. Í þeirri alþjóðlegu samkeppni sem hún býr við,“ segir Andrés.

Rannsóknir bendi til að Íslendingar kaupi á bilinu 30 til 45 prósent af sínum fatnaði í útlöndum, mismunandi eftir tegundum. Mest sé keypt af barnafatnaði í útlöndum.

„Og það hefur þráfaldlega verið bent á það sem dæmi og fáránleikan í þessu öllu saman að Hennes og Mauritz, sem er ekki einu sinni með verslun á Íslandi, skuli verða með 25 prósenta markaðshlutdeild á íslenskum barnafatamarkaði. Ég held að það segi allt sem segja þarf um ástandið í þessum efnum,“ segir Andrés.

Þá sé mismunandi álagning virðisaukaskatts á fatnað á Íslandi og í öðrum löndum einig hindrun á jafnri samkeppni. Almennt sé virðisaukaskattur á fatnað hér hærri en í þeim löndum sem íslendingar ferðist til. Því þurfi að auki að færa fatnað í lægra virðisaukaskattsþrepið.

„Greinin er að keppa við 6 til 8 prósent söluskatt í flestum fylkjum Bandaríkjanna. Þar með talið í Boston þangað sem margir fara til að versla. Hvað varðar barnafatnað þá er barnafatnaður fyrir börn upp í 14 ára án virðisaukaskatts í Bretlandi. Margir fara til að versla í Lundúnum og öðrum borgum Bretlands,“ segir Andrés Magnússon.


Tengdar fréttir

Lækkar tolla til að ná fataverslun heim

Fjármálaráðherra hyggst taka tollakerfið til heildarendurskoðunar. Hann horfir sérstaklega til tolla á fatnað sem standi innlendri verslun fyrir þrifum. Hann vill fella valda tolla niður. Þeir skili ekki miklum tekjum og valdi bjögun í verðlagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×