Innlent

Alvarlegar hótanir í garð starfsmanna algengar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar er starfandi áreitinefnd og fara öll mál af þessum toga í ákveðið ferli.
Hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar er starfandi áreitinefnd og fara öll mál af þessum toga í ákveðið ferli. vísir/gva
Nokkuð hefur borið á að starfsfólki Barnaverndar sé hótað eða ógnað af skjólstæðingum sínum eða aðilum þeim tengdum. Hótanirnar beinast oft að fjölskyldumeðlimum starfsfólksins og dæmi eru um að miski hafi verið unninn á eigum þeirra. Að minnsta kosti eitt slíkt mál hefur komið upp á þessu ári.

Fyrstu mál þessarar tegundar komu upp árið 2006. Þá var ákvörðun tekin um að starfsmenn færu aldrei einir á vettvang þegar um bráðatilvik væri að ræða og fara þeir nú ávallt tveir eða fleiri saman.

Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, segir að með aukinni tækni hafi hótanirnar aukist umtalsvert. „Hótanir í tölvupóstum, í prívat skilaboðum á Facebook eða símleiðis eru mjög algengar. Svo eru alvarlegri hlutir eins og að fólk sé elt af heimilum sínum eða börn þeirra áreitt. Það er þó sjaldgæfara. Síðan eru dæmi um að ráðist sé á starfsmenn, á heimilum þeirra eða vinnu,“ segir hún.

Þá segir hún að dæmi séu um að teknar séu af starfsfólkinu myndir, fylgst sé með því og heimili þeirra jafnvel vaktað. „Það er kannski verið að skilja eftir sig ummerki, inni á lóð eða teknar myndir. Það er þessi nálgun sem getur verið svo erfið.“

Halldóra segir að um sé að ræða fólk sem sé illa statt í sínu lífi, oft í vímuefnaneyslu, sem sé eðli máls samkvæmt ekki alltaf ánægt með það inngrip sem barnaverndarstarfsmenn hafi leyfi fyrir. Vald barnaverndarstarfsmanna, samkvæmt lögum, sé töluvert.

Oft reynir ansi mikið á þolmörk starfsfólksins og margir hverjir bera kvíðboga í lengri tíma, að sögn Halldóru. Hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar er starfandi áreitinefnd og fara öll mál af þessum toga í ákveðið ferli. Hana grunar þó að fæst mál séu tilkynnt til nefndarinnar.

„Starfsmenn geta fengið áfallahjálp en það sem fólki hefur þótt erfitt er að hver og einn þarf í eigin persónu að kæra málið til lögreglu undir sínu nafni. Hann fær stuðning og handleiðslu hjá yfirmönnum, en ég sem stjórnandi get ekki kært þetta ofbeldi fyrir hönd míns starfsmanns Það er það sem getur reynst fólki erfitt því þarna er þetta orðið svo persónugert í einstaklingnum en ekki í starfinu eða stofnun sem það vinnur fyrir,“ segir Halldóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×