Innlent

Svefnleysi kvenna algengt og alvarlegt vandamál

Snærós Sindradóttir skrifar
Erla Björnsdóttir, sérfræðingur í svefnleysi, hvetur konur til að leita sér aðstoðar snemma svo ekki skapist vítahringur. Svefn sé nauðsynlegur.
Erla Björnsdóttir, sérfræðingur í svefnleysi, hvetur konur til að leita sér aðstoðar snemma svo ekki skapist vítahringur. Svefn sé nauðsynlegur. Fréttablaðið/GVA
Konur leita í auknum mæli geðrænnar aðstoðar vegna langvarandi svefnleysis. Orsök svefnleysisins er sambland af hormónatruflunum og álagi í daglegu lífi.

„Svefnleysi er algengara hjá konum almennt og það eru ýmsir þættir sem hafa áhrif á svefninn, svo sem hormón sem tengjast blæðingum, barneignum og tíðahvörfum,“ segir Erla Björnsdóttir, doktor í sálfræði og sérfræðingur í svefnleysi. 

Svefnleysið orsakist líka af meira vinnuálagi á konur í tengslum við heimilishald og barnauppeldi. „Streita er algengari hjá konum. Konur hafa líka tilhneigingu til að velta hlutunum meira fyrir sér. Hugsanir okkar halda fyrir okkur vöku þegar loks er lagst á koddann.“

Hún segir að svefnleysi kvenna hefjist oft eftir barneignir þegar konur rjúfa sitt eðlilega svefnmunstur til að sinna brjóstagjöf um nætur. Þegar barnið fer að sofa óslitið sitji móðirin oft eftir andvaka. 

„Svefnleysið hefur gríðarlega mikil áhrif. Eins og þeir þekkja sem misst hafa svefn í skamma stund þá lætur einbeitingin og orkan fljótt á sjá,“ segir Erla. „Þegar þetta er orðið langvarandi vandamál fer svefnleysið að snerta flesta fleti daglegs lífs. Fólk tekur fleiri veikindadaga frá vinnu og sýnir mun minni framleiðni. Sjúkdómatíðni eykst því ónæmiskerfið bælist og svo eykst tíðni geðraskana, þunglyndis og kvíða. Slysatíðni svefnlauss fólks eykst líka töluvert,“ segir Erla.

Þær konur sem þjást af svefnleysi leita sér oft hjálpar þegar þær eru komnar í andlegt og líkamlegt öngstræti. „Ég fæ oft konur til meðferðar sem byrjuðu að sofa illa eftir fyrsta barnið fyrir tuttugu árum og svo hefur vandinn ágerst smám saman. Þær leita til mín þegar þær eru komnar á stig sem er ekki lengur viðunandi.“

Erla segir svefnlyf ekki rétta svarið við langvarandi svefnleysi. Þau séu notuð í of miklum mæli hérlendis. „Þð er klárt að langvarandi svefnlyfjanotkun er algjörlega úr öllu hófi á Íslandi. Það er í lagi að nota svefnlyf til að rjúfa ákveðinn vítahring í tvær til fjórar vikur. 

Það er hægt að meðhöndla þennan vanda í flestum tilfellum á árangursríkan hátt með hugrænni atferlismeðferð. Við þurfum að uppræta okkar eigið hegðunarmynstur til þess að bæta svefninn.“ Erla segir sálfræðimeðferð við svefnleysi oftast taka um það bil sex vikur.

Halldóra Jónsdóttir yfirlæknir bráðageðdeildar LandspítalansFréttablaðið/ Vilhelm
Halldóra Jónsdóttir, yfirlæknir á bráðageðdeild Landspítalans, tekur undir að um alvarlegt vandamál sé að ræða. „Margar konur upplifa þetta meira þegar árin færast yfir. Þessu fylgir kvíði, innri spenna og óróleiki og svo verður þetta að bolta sem vindur upp á sig.“

Haldóra segir að svefnlausar konur geti jafnframt upplifað athyglisbrest og að eiga erfitt með að halda utan um eigið líf. „Jafnvel getur fólk sem býr við langvarandi svefnleysi og er undir miklu álagi upplifað einhvers konar raunveruleikabrest. Við sjáum það stöku sinnum,“ segir Halldóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×