Innlent

Bandaríkjamenn eru fjölmennasti hópurinn

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Á fyrri hluta ársins var fallist á 91 prósent umsókna um ríkisborgararétt.
Á fyrri hluta ársins var fallist á 91 prósent umsókna um ríkisborgararétt. Fréttablaðið/Stefán
Á fyrsta fjórðungi þessa árs gaf Útlendingastofnun út 861 dvalarleyfi til fólks af 84 þjóðernum, samkvæmt bráðabirgðatölum stofnunarinnar.

„Fjölmennastir þeirra sem fengu dvalarleyfi voru Bandaríkjamenn eða 17,5 prósent allra útgefinna leyfa,“ segir í umfjöllun Útlendingastofnunar.

Að auki eru fimm önnur þjóðerni sögð hafa verið áberandi á tímabilinu; Filippseyingar, Taílendingar, Kínverjar, Kanadamenn og Víetnamar. „Á bilinu 45 til 75 einstaklingar af þessum uppruna fengu útgefin dvalarleyfi.“

Fram kemur að dvalarleyfi til aðstandenda Íslendinga annars vegar og námsmanna og aðstandenda þeirra hins vegar hafi verið algengustu tegundir útgefinna leyfa á tímabilinu, eða 63 prósent umsókna. Þriðji algengasti flokkur dvalarleyfa eru svo búsetuleyfi, sem fela í sér varanlegt dvalarleyfi hér á landi.

Þá kemur fram að synjað hafi verið um útgáfu dvalarleyfis í 30 málum.

„Var því fallist á umsókn um veitingu dvalarleyfis í tæplega 97 prósentum tilfella og er það svipað því sem verið hefur undanfarin ár.“

Þá var fallist á 229 af 253 umsóknum um íslenskan ríkisborgararétt og sex fengu lausn undan íslenskum ríkisborgararétti samkvæmt beiðni þar um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×