Innlent

Heildaruppstokkun á kjarasamningum: "Kallar eðlilega á ákveðin átök eða togstreitu milli aðila“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, að loknum löngum fundi í karphúsinu í nótt.
Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, að loknum löngum fundi í karphúsinu í nótt. Vísir/Egill Aðalsteinsson
Eins og kunnugt er var skrifað undir nýjan kjarasamning milli Læknafélags Íslands og ríkisins á fjórða tímanum í nótt og verkfalli lækna þar með frestað, en það hafði staðið yfir frá því 27. október.

Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, sagði í samtali við fréttastofu í nótt að það væri mikilvægt fyrir ríkið að samningar skuli hafa tekist.

„Það er mikilvægt fyrir ríkið af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi, sem er náttúrulega langmikilvægast, það er þessi röskun sem orðið hefur fyrir sjúklinga, hún verður þá ekki meiri en þegar er orðin, og er þó nóg fyrir. Það er sem betur fer að leysast. Hitt atriðið sem skiptir líka máli er að þessi samningur styður töluvert mikið við þau markmið sem ríkisstjórnin er að reyna að ná fram í heilbrigðismálum,“ sagði Gunnar.

Sjá einnig: „Algjör uppstokkun á samningi lækna“

Samningurinn styður við drög að yfirlýsingu sem að Læknafélagið og Skurðlæknafélagið hafa verið að vinna að ásamt ráðherrum og sagði Gunnar að lokahönd yrði lögð á þá yfirlýsingu á næstu dögum.

 

Gunnar sagði ekki hægt að leyna því að ríkið þurfti að teygja sig töluvert lengra en það hefði viljað til að semja við lækna. Hann vildi þó ekki gefa neitt upp um innihald samningsins aðspurður um hvort læknar hefðu hafnað 28% launahækkun, líkt og Fréttablaðið greindi frá í seinustu viku.

Fékk samninganefnd ríkisins aukið umboð síðustu daga?

„Við höfum ekkert verið neitt plöguð af því að hafa ekki umboð. Þetta hefur meira snúist um það að ná saman textanum og efnisatriðum samningsins. Þetta er heildaruppstokkun á kjarasamningnum og þar er kannski helst verið að stokka upp launaákvörðunarfyrirkomulagi og vinnufyrirkomulagi. Þetta eru þau atriði sem í flestum kjarasamningum teljast þau veigamestu og slík uppstokkun kallar eðlilega á ákveðin átök eða togstreitu milli aðila.“

En ertu ánægður með niðurstöðuna?

„Ég er þokkalega sáttur. Eins og ég segi, er ég fyrst og fremst sáttur við það að það náðist samkomulag um það hvernig staðið verði að breytingunum,“ sagði Gunnar.


Tengdar fréttir

Verkfalli lækna frestað

Samningar náðust í deilu lækna við íslenska ríkið á þriðja tímanum í nótt.

„Algjör uppstokkun á samningi lækna“

"Mér líður bara vel. Ég vona að landsmenn séu ánægðir með að verkfalli verði aflýst,“ segir Sigurveig Pétursdóttir, formaður samninganefndar lækna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×