„Það eru svo ótrúlega margir áhugaverðir listamenn hérna. Axel er einn,“ sagði Neil en þeir félagar voru mættir í Hörpu og á leiðinni á tónleika Axels Flóvents í Silfurbergi.
„Við hittum Svisslending í röð áðan sem að hélt ekki vatni yfir honum. Axel er víst á hraðri uppleið þannig að við ákváðum að skella okkur.“
Að neðan má hlusta á lag Axels Flóvents, My Ghost.
Aðspurðir hvort um rómantíska ferð sé að ræða svarar Englendingarnir á sama tíma. „Ég veit ekki með rómantíska ferð“ og „Það er alltaf rómantískt hjá okkur.“ Svo skella þeir upp úr. Þeir voru þó svo heppnir að sjá norðurljósin á götum miðbæjarins í gærkvöldi og því búnir að spara sér vænan skildinginn og ferð út fyrir borgarmörkin til að upplifa þá glæsilegu sýn.
„Það kom okkur á óvart. Nú er hægt að stroka það af listanum,“ segir Chris léttur.

Þeir segja borgarbúa afar vinalega og Reykjavík frábæran stað til að sötra á góðu kaffi og glugga í bók.
Hér sé gaman að versla og slappa af. Hraðinn í samfélaginu er þægilegur að þeirra mati.
„Við erum vegan og Reykjavík er frábær borg fyrir okkur hvað það varðar,“ segja þeir.
Svo virðist sem valkostum vegan fólks í borginni hafi fjölgað til muna undanfarin misseri miðað við reynslu þeirra félaga.

Cameron vildi ekki gera mikið úr Icesave í spjalli við fjölmiðla hér á landi í síðustu viku en Chris og Neil heyrðu af reikningunum á sínum tíma.
Þeir segja viðskiptablaðamenn í Englandi hafa lofsungið reikningana og hvatt fólk til að nýta sér háu vexti Landsbankans.
„Það munaði um sólarhing á því að við lögðum inn á reikningana. Við vorum heppnir,“ segir Neil og blaðamaður samsinnir. Um leið bætir Neil við: „Það hefði samt verið betra að vinna í lottóinu!“
Iceland Airwaves hófst í dag og stendur fram á sunnudag. 240 listamenn koma fram á 293 tónleikum á þrettán stöðum. Gestir verða um 9000 en löngu er uppselt á hátíðina. Þá fer mikill fjöldi tónleika fram utan dagskrár, svokölluð „off venue“ dagskrá. Ókeypis er inn á viðburði hennar. Dagskrána má sjá hér.
Axel Flóvent @ Silfurberg Harpa
Posted by Iceland Airwaves Music Festival on Wednesday, November 4, 2015