Innlent

Ferðamenn telja Drekkingarhyl óskabrunn

Snærós Sindradóttir skrifar
Leikskólabörn virða fyrir sér klinkið á botninum. Gjáin er ekki óskabrunnur heldur hefur fyrst og fremst fagurfræðilegt gildi.
Leikskólabörn virða fyrir sér klinkið á botninum. Gjáin er ekki óskabrunnur heldur hefur fyrst og fremst fagurfræðilegt gildi. vísir/GVA
Landverðir á Þingvöllum hafa vart undan að hreinsa Flosagjá, Drekkingarhyl og Öxará af smápeningum sem ferðamenn henda ofan í. Svo virðist sem ferðamenn líti svo á að um óskabrunna sé að ræða.

Guðrún Kristinsdóttir, yfirlandvörður á Þingvöllum, segir landverði reyna að stemma stigu við vandanum. „Það er okkur í óþökk að fólk sé að henda peningum alls staðar. Að henda í Drekkingarhyl er í hæsta máta þversögn við hlutverk Drekkingarhyls í okkar sögu. Að gera hann að einhverjum óskabrunni.“

Frá upphafi tuttugustu aldar hefur tíðkast að kasta smámynt í Peningagjá, öðru nafni Nikulásargjá.

„Fólk kallar Peningagjá á Þingvöllum óskabrunn, sem er bara bjánalegt. Óskabrunnar hafa aldrei verið til á Íslandi þótt þeir hafi verið til í evrópskum þjóðsögum,“ segir Guðrún.

Hún segir að vel gangi að hreinsa úr ánni. Það sé þó öllu erfiðara að hreinsa úr Drekkingarhyl, enda sé hann djúpur og landverðir vilji ekki leggja sig í hættu.

Klinkinu er safnað saman í krukku á skrifstofu landvarða. „Ég veit að þetta hljómar eins og argasta klisja. Þegar ég fer til útlanda þá tek ég þetta með mér og set þetta í söfnunarumslagið hjá Icelandair. Við kunnum ekki við að henda þessu.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×