Skoðun

Reykjavíkurflugvöllur – opnum hugann

Snorri Snorrason skrifar
Ef farið er yfir umræðuna um flugvöllinn þá hugsa borgaryfirvöld aðeins um þéttingu byggðar og vilja flæma flesta atvinnustarfsemi í burtu, þar á meðal völlinn. Þó að um flugvöllinn fari milli 300 og 400 þúsund farþegar árlega.

Því miður er ríkjandi hjá allt of mörgum sem búa á höfuðborgarsvæðinu eftirfarandi viðhorf: Ég er heilsuhraust/ur og þarf lítið á sjúkrahúsi að halda, enda er það í 5-10 mín. fjarlægð fyrir mig og mína. Einnig: Ég hef allt mitt hér, þarf ekkert að tengjast flugvellinum til að komast út á land. En það er þögull hluti þjóðarinnar sem býr í dreifðum byggðum landsins og greiðir í sameiginlega sjóði og er hluti af þessari þjóð, enda hefur landsbyggðarfólk þrár, vilja og langanir til höfuðborgarinnar til að sinna hugðarefnum sínum, eða þarf að sækja þjónustu Landspítalans rétt eins og við, enda er fólk á landsbyggðinni ekki annars flokks þegnar.

Af hverju hugsar þjóðin ekki í meira mæli út fyrir rammann, rætur okkar flestra liggja úti á landi. Einnig heyrist hjá ákveðnum stjórnmálaöflum að það sé sjálfsagt að leyfa innflutning fólks frá fjarlægum löndum, sem býr við bágindi og erfiðleika, sem er ágæt hugsun, en sömu öfl snúa baki við sínum eigin þegnum í þessu máli. Það vekur einnig furðu að þingmenn landsbyggðarinnar skuli ekki standa allir saman sem einn, þegar flugvöllinn ber á góma. Síðan að borgarstjórinn skuli sjálfur hafa komið sér fyrir í Rögnunefndinni, það gat ekki verið ávísun á skynsamlega niðurstöðu.

Engin tilviljun

Það er engin tilviljun að flugvöllur var byggður í Vatnsmýrinni. Af hverju hlusta ráðamenn ekki á þjóðina, meirihlutinn vill flugvöllinn í Reykjavík, við búum við lýðræði er það ekki? Hann á að þróa og laga til framtíðar, það má gera í áföngum. En því miður hefur þar margt drabbast niður í áratugi. Að mínu viti á að reka í Reykjavík innanlandsflug, sjúkraflug og varaflugvöll, því þar eru allt önnur jarðlög en hraunið sem við sjáum sunnan Reykjavíkur. Þar er hætta á eldsumbrotum, væntanlega aðeins spurning um tíma. Það hefur aldrei talist skynsamlegt að setja öll eggin í sömu körfuna, þá er betra fyrir eyþjóðina að hugsa meira um lífið sjálft en byggingar í Vatnsmýrinni.

Undirritaður hefur nýlega þurft að njóta þjónustu Landspítalans vegna veikinda, sem verður seint fullþakkað. Að mínu mati er það mannréttindabrot gagnvart landsbyggðinni ef hróflað verður við flugvellinum.

Ríkisstjórn sem vill láta taka sig alvarlega, enda þar fulltrúar þjóðarinnar, lætur ekki eigingjarna borgarstjórn eyðileggja þá þjóðar- og öryggishagsmuni sem Reykjavíkurflugvöllur er fyrir íslenska þjóð.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×