Innlent

Ónógt eftirlit sagt með kaupum bankanna

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Össur Skarphéðinsson
Össur Skarphéðinsson
Pólitísk samstaða myndaðist á milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á þingi á þriðjudag þegar Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, og Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gerðu kaup bankanna þriggja á sparisjóðum að umtalsefni.

Össur og Ragnheiður voru sammála um að eftirliti með kaupunum væri ábótavant og Össur kallaði eftir því að efnahags- og viðskiptanefnd og jafnvel stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins fjölluðu um málið.

Um síðustu helgi var tilkynnt um að Sparisjóður Norðurlands gengi inn í Landsbankann, sömu leið og Sparisjóður Vestmannaeyja gerði í maí. Í júní eignaðist Arion banki Afl sparisjóð, en hann varð til við samruna Sparisjóðs Siglufjarðar og Sparisjóðs Skagafjarðar.

„Það sem einkennir þessa atburðarás er að um leið og það koma fjárfestar ýmist með innlenda eða erlenda peninga og sjá viðskiptatækifæri í sparisjóðunum þá koma stóru bankarnir og gleypa þá. Og ég spyr: Hvar er Fjármálaeftirlitið? Hvar er Samkeppniseftirlitið?“ spurði Össur á þingi og bætti við að með þessu væru bankarnir að ryðja burt mögulegum keppinautum í framtíðinni.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir
Ragnheiður tók undir með Össuri og sagði að svo virtist sem hvorki Samkeppnis- né Fjármálaeftirlit sinntu meginhlutverki sínu í þessum gjörningum. Hún tiltók líka samruna MP-banka og Straums og varaði við því að til væri að verða álíka einsleitt bankakerfi og fyrir hrun.

„Það hljóta að klingja bjöllur í þessum sal, í það minnsta hjá okkur sem hér sátum árið 2008 þegar bankakerfið hrundi; það virðist sem við stefnum í jafn einsleitt bankakerfi og áður var. Virðulegi forseti. Með fullri virðingu, það setur að mér hroll.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×