Innlent

Garðbæingar eldast hratt

Sveinn Arnarsson skrifar
Þreföldun aldraðra í Garðabæ frá 1998 gæti haft mikil áhrif á tekjur og gjöld sveitarfélagsins þegar fram í sækir.
Þreföldun aldraðra í Garðabæ frá 1998 gæti haft mikil áhrif á tekjur og gjöld sveitarfélagsins þegar fram í sækir. Mynd/Sigurjón Ólason
Garðbæingum í aldurshópnum 68 ára og eldri hefur fjölgað um 300% frá því um aldamótin. Til samanburðar hefur sama aldurshópi fjölgað aðeins um þriðjung á sama tímabili. Byggðaþróun sem þessi gæti haft nokkrar afleiðingar fyrir tekjur og útgjöld sveitarfélagsins ef fram heldur sem horfir. „Við viljum byggja fleiri íbúðir sem henta ungu barnafólki,“ segir formaður bæjarráðs Garðabæjar. 

Stefán Hrafn Jónsson
„Það eru hlutfallslega fáar konur á barneignaraldri í sveitarfélaginu. Þetta getur haft þau áhrif að færri börn fæðast í sveitarfélaginu en ráð var fyrir gert. Því vaxa úr grasi minni árgangar. Íbúasamsetningin í dag gefur vísbendingu um að öldruðum muni fjölga enn meira næstu árin og að sama skapi muni börnum eitthvað fækka í sveitarfélaginu,“ segir Stefán Hrafn Jónsson félagsfræðingur. „Möguleg ástæða getur verið að ungt fólk hefur ekki efni á búsetu í Garðabæ“

Fyrirtækið KPMG vann skýrslu fyrir Garðabæ um fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Niðurstöður greiningar fyrirtækisins eru í öllum meginatriðum þær að rekstur Garðabæjar sé mjög góður miðað við samanburðarsveitarfélög og að skatttekjur sveitarsjóðs séu hærri af hverjum íbúa en í öðrum sveitarfélögum. Íbúar Garðabæjar eru jafnframt ánægðir með þá þjónustu sem sveitarfélagið býður upp á. 

Hins vegar segja greinarhöfundar ljóst að þjónusta við aldraða muni vega þyngra og þyngra í rekstri bæjarins á komandi árum. Hjúkrunarheimilið Ísafold tók til starfa í apríl 2013 og hefur verið rekið með 319 milljóna króna halla árin 2013 og 2014. Gert er ráð fyrir áframhaldandi hallarekstri stofnunarinnar að óbreyttu í skýrslunni. Uppsafnaður hallarekstur á Ísafold frá opnun 2013 og út áætlunartímann 2018 nemur einum milljarði króna. 

Áslaug Hulda Jónsdóttir
Áslaug Hulda Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Garðabæjar, segir bæjarstjórn hafa rætt þessa breyttu íbúasamsetningu og mikilvægt sé að sporna við þessari þróun með markvissum aðgerðum. „Það er mikilvægt fyrir okkur að í Garðabæ búi fólk á öllum aldri og að jöfn dreifing sé milli aldurshópa. Hlutfallslega hefur eldri bæjarbúum fjölgað síðustu misseri í sveitarfélaginu og nú viljum við leita leiða til að yngra fólk geti í auknum mæli valið sér búsetu í Garðabæ. Við höfum rætt þetta í bæjarstjórn og skoðum nú leiðir til að auka jafnvægi í þessu sem og öðru,“ segir Áslaug Hulda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×