Innlent

Bolungarvík krefst 147 milljóna í bætur

Ingvar Haraldsson skrifar
Snjóflóðavarnagarðarnir undir Traðhyrnu voru vígðir formlega í september á síðasta ári.
Snjóflóðavarnagarðarnir undir Traðhyrnu voru vígðir formlega í september á síðasta ári. mynd/aðsend
Bolungarvíkurkaupstaður hefur stefnt framleiðendum snjóflóðavarnagarða og verktökum vegna hruns sem varð úr snjóflóðavarnagörðum undir Traðhyrnu árið 2009. Framkvæmdir við byggingu varnargarðanna voru þá skammt á veg komnar.

Byrja þurfti upp á nýtt á verkinu samkvæmt nýrri hönnun vegna hrunsins, en Bolungarvík greiddi hinn aukna kostnað sem af því hlaust. Bærinn fer fram á að fá 147 milljónir króna í bætur.

Stærstur hluti kröfunnar er á hendur Officine Maccaferri, sem framleiðir vírnet sem fór í varnargarðanna. Fyrirtækið er krafið um 103 milljónir króna til að greiða aukinn efniskostnað sem varð eftir að hönnun var breytt.

Þá eru verktakar krafðir um 44 miljónir króna sem bæta eiga það tjón sem varð við að koma verkinu á þann stað sem það var áður en hrunið varð.

Yfirmatsmenn eru nú að störfum við að meta tjónið og gert er ráð fyrir að þeir skili niðurstöðu síðar í sumar.

Snjóflóðavarnagarðarnir voru vígðir formlega síðasta haust. Heildarkostnaður við framkvæmdir nam 1,6 milljörðum króna og var að stærstum hluta greiddur af Ofanflóðasjóði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×