Innlent

Konur hafna ríkisstjórninni

jón hákon halldórsson skrifar
vísir/gva
Rúmlega þriðjungur svarenda styður ríkisstjórnina en tæplega tveir af hverjum þremur styðja hana ekki. Þetta sýna niðurstöður skoðanakönnunar Fréttablaðsins. Rúmlega fjórir af hverjum tíu karlmönnum styðja ríkisstjórnina en einungis þrjár af hverjum tíu konum.

„Ég ímynda mér að þegar við förum núna að sjá meiri árangur af He4she og jafnvel húsnæðismálum og meira af þessum mjúku málum, sem eru þó í senn hörð mál, þá fari konur að opna aðeins betur augun,“ segir Anna Kolbrún Árnadóttir, formaður Landssambands framsóknarkvenna, um niðurstöður könnunarinnar.

„Við viljum að raddir kvenna heyrist og það eru svona nærmálefni sem skipta konur máli,“ segir Anna Kolbrún. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur lagt sig fram um að vekja athygli á He4She-átakinu sem leikkonan Emma Watson ýtti úr vör.

„Nú, þegar 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna er minnst, eru þær vel meðvitaðar um hversu lítið konur hafa í raun komið að mikilvægum ákvörðunum í stjórnmálasögunni. Það gæti verið að þeim finnist núverandi ríkisstjórn endurspegla það að einhverju leyti,“ segir Þórey Vilhjálmsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna. Hún bendir á að nú sé til dæmis nýafstaðin kynning á afnámi gjaldeyrishafta og þar hafi konur verið lítt sýnilegar. „Þetta skiptir máli og þarna er augljóst tækifæri fyrir stjórnarflokkana til að eflast - með því að auka völd kvenna. Konur vilja sjá konur í forystu jafnt sem karla.“

Séu svörin skoðuð í heild sést að 32 prósent svarenda segjast styðja ríkisstjórnina, 55 prósent styðja hana ekki, 10 prósent taka ekki afstöðu og þrjú prósent svara ekki. Séu einungis skoðuð svör þeirra sem afstöðu taka sést að 37 prósent svarenda styðja ríkisstjórnina en 63 prósent styðja hana ekki.

Séu skoðuð svör þeirra karlmanna sem afstöðu taka sést að 43 prósent styðja ríkisstjórnina en 57 prósent styðja hana ekki. Aftur á móti styðja einungis 29 prósent kvenna, sem afstöðu tóku, ríkisstjórnina en 71 prósent styður hana ekki.

Könnunin var gerð þannig að hringt var í 1.249 manns þar til náðist í 800 samkvæmt lagskiptu úrtaki dagana 15. og 16. júní.  Svarhlutfallið var 64,1 prósent. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr Þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir búsetu og aldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×