Innlent

Segja borgina ekki efna samning

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Íþróttafélag Reykjavíkur. Ólafur Gylfason hvetur Reykjavíkurborg til þess að standa við gerða samninga.
Íþróttafélag Reykjavíkur. Ólafur Gylfason hvetur Reykjavíkurborg til þess að standa við gerða samninga. mynd/vilhelm
ólafur gylfason
„Við erum orðin mjög þreytt á þessu. Reykjavíkurborg þverneitar að ræða efndir á samningnum sem er til skammar,“ segir Ólafur Gylfason, fyrrverandi stjórnarmaður Íþróttafélags Reykjavíkur, um samning félagsins við Reykjavíkurborg frá árinu 2006.

Ólafur stendur nú fyrir undirskriftasöfnun þar sem skorað er á borgarstjórn að standa við samning um byggingu fjölnota íþróttahúss frá árinu 2006.

„Íþróttaaðstaða ÍR, nærri fimmtíu árum eftir að ÍR fluttist í Breiðholtið, er enn ókláruð,“ segir Ólafur, sem telur hallað á ÍR miðað við önnur íþróttafélög.

Árið 2008 þáði borgarstjóri lóðir sem ÍR lét af hendi gegn samningum um uppbyggingu á íþróttasvæðinu.

„Ári síðar samþykkti ÍR að fresta byggingu íþróttamannvirkisins til ársins 2014 vegna ástandsins eftir hrun,“ segir Ólafur og bætir við að nú sé Reykjavík að gefa lóðirnar sem ÍR gaf þeim, þrátt fyrir vanefndan samning.

„Ég krefst þess að lóðunum í kring um íþróttasvæðið verði skilað aftur,“ segir Ólafur.



Þórgnýr Thoroddsen
 „Eins og staðan er í dag erum við að fara yfir stöðu húsnæðismála og er starfshópur í því að setja upp forgangsmálin,“ segir Þórgnýr Thoroddsen, formaður Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar, og bætir við að nýr samningur hafi tekið gildi árið 2015 sem leysi borgina frá skuldbindingu fyrri samninga.

„Það er ekki einhver skipulögð mismunun í gangi en þetta verður skoðað.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×