Innlent

Úthafskarfavertíðin brást í ár

Svavar Hávarðsson skrifar
Fá skip stunda veiðarnar og eiga erfitt með að staðsetja karfann.
Fá skip stunda veiðarnar og eiga erfitt með að staðsetja karfann. mynd/hbgrandi
Úthafskarfavertíðin brást þetta árið, segir Kristinn Gestsson, skipstjóri á frystitogaranum Þerney RE, í frétt á heimasíðu HB Granda.

Að þessu sinni fóru tvö skip HB Granda, Þerney og Örfirisey, til veiða á djúpkarfa á úthafskarfaslóðinni en Kristinn segir að eftir að Þerney hafði fengið ágætan afla strax í byrjun hafi botninn gjörsamlega dottið úr veiðinni.

Kristinn tekur fram að úthafskarfakvótinn sé reyndar orðinn það lítill að fá skip stundi veiðarnar. Útlensk skip veiði rétt utan 200 mílna lögsögumarkanna og þaðan berist fréttirnar um aflabrögðin. Hafsvæðið innan íslensku lögsögunnar sé það stórt að örfá skip geti ekki leitað á því öllu að nokkru gagni. „Karfinn þéttir sig á mjög afmörkuðu svæði og það er eins og að leita að nál í heystakki að finna hann,“ segir Kristinn.

Einnig segir frá því að ákaflega rólegt var yfir ufsa- og grálúðuveiðum fyrir austan land. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×