Innlent

Ríkið greiðir milljarð fyrir hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð

Ingvar Haraldsson skrifar
Húsnæðið sem ríkið kaupir er alls 4.500 fermetrar að stærð.
Húsnæðið sem ríkið kaupir er alls 4.500 fermetrar að stærð. VÍSIR/ANTON
Íslenska ríkið mun greiða einn milljarð króna fyrir húsnæði hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar við Kópavogsbraut 1c. Kaupin eru hluti af lausn á skuldavanda Sunnuhlíðarsamtakanna, en ríkið tók yfir rekstur hjúkrunarheimilisins á síðasta ári. Samtökin áttu húsnæðið áfram.

Samkvæmt svari fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn Fréttablaðsins voru 147 milljónir greiddar til Sunnuhlíðarsamtakanna fyrir húsnæðið, sem alls er 4.500 fermetrar.

Einnig voru lífeyrisskuldbindingar við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga, sem nema 728 milljónum króna, yfirteknar. Þar að auki var yfirtekin um 137 milljóna króna skuld hjúkrunarheimilis Sunnuhlíðar við ríkisaðila sem myndast hafði af rekstri þess.

Með samkomulaginu á fjárhagur samtakanna að vera kominn í lag. „Þessi lausn miðar að því að allir koma út á sléttu,“ segir Þóra Þórðardóttir, formaður stjórnar Sunnuhlíðarsamtakanna. Sunnuhlíðarsamtökin munu áfram reka íbúðir í grennd við hjúkrunarheimilið.

Hluti af samkomulaginu felst í að Kópavogsbær falli frá 81 milljónar króna fasteignagjaldaskuld Sunnuhlíðar við bæinn. Þá þurfa lánardrottnar einnig að afskrifa hluta af lánum sínum við Sunnuhlíð að sögn Þóru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×