Innlent

Engir fundir og allt vitlaust á Alþingi

Þingstarf fór í uppnám í gær eftir að breytingartillaga Sigurðar Inga Jóhannssonar um makríl var kynnt í nefnd.
Þingstarf fór í uppnám í gær eftir að breytingartillaga Sigurðar Inga Jóhannssonar um makríl var kynnt í nefnd. VÍSIR/GVA
Tillaga Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um breytingar á frumvarpi um makríl varð til þess að störf á Alþingi komust í uppnám. Fundur átti að hefjast klukkan 11 en honum var ítrekað frestað og að lokum fór það svo að klukkan 17.15 hófst fundur þar sem ekkert annað var samþykkt en tillaga um stofnun Jafnréttissjóðs Íslands.

Ekki verður að óbreyttu boðað til almenns þingfundar fyrr en í næstu viku.

Tillaga ráðherra gengur út á það að makríllinn verði kvótasettur líkt og aðrar fisktegundir. Samkvæmt frumvarpi ráðherra var gert ráð fyrir því að kvóta yrði úthlutað til sex ára, framsal kvóta yrði óheimilt en tilflutningur milli skipa innan sömu útgerðar yrði heimill.

Hart er deilt um frumvarpið og hefur stjórnarandstaðan gagnrýnt að úthlutað sé til sex ára. Þá hefur útgerðin gagnrýnt að sérreglur séu settar um makrílkvóta, aðrar en gilda um annan kvóta.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var stjórnarandstaðan tilbúin að sættast á, að óbreyttar forsendur varðandi makríl yrðu framlengdar í eitt ár, en ekki yrðu gerðar neinar varanlegar breytingar til lengri tíma. Tillaga ráðherra hleypti því öllu í bál og brand.

Alls hafa rúmlega 51.000 manns ritað undir áskorun til forseta Íslands um að vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu hverjum þeim lögum sem ráðstafi fiskveiðiauðlindum til lengri tíma en eins árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×