Innlent

Vilja sporna við óhófi í sölu lyfja

Svavar Hávarðsson skrifar
Mun ódýrara er að kaupa meira magn vissra lyfja.
Mun ódýrara er að kaupa meira magn vissra lyfja. nordicphotos/gettyimages
Lyfjateymi Embættis landlæknis hefur skilað inn tillögum um breytt viðmiðunarverð til að bæta ávísanir ávanabindandi lyfja. Til að sporna við óhóflegum ávísunum þessara lyfja er það tillaga teymisins að töfluverð sem flestra ávanabindandi lyfja verði því sem næst óháð pakkningastærð, segir í frétt á vef embættisins.

Á Íslandi er notkun svefnlyfja, verkjalyfja, róandi og kvíðastillandi lyfja og þunglyndislyfja sú mesta á Norðurlöndunum.

Forsenda tillögunnar er sú staðreynd að munur á töfluverði vissra lyfja í mismunandi pakkningum er verulegur. Það veldur því að mun meira er selt af 30 stykkja pakkningum en 10 stykkja sem er oft á skjön við ráðlagða notkun þeirra. Engin almenn greiðsluþátttaka er fyrir svefnlyf af hálfu Sjúkratrygginga Íslands og því er hagur sjúklinga eingöngu háður verði úr apótekum og þar með viðmiðunarverðskrá.

„Eðlilegast væri að læknar væru ekki settir í þá stöðu að semja við sjúklinga um ávísanir ávanabindandi lyfja eftir því hvað þau kosta,“ segir embættið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×