Innlent

Ekki hægt að tryggja öllum heimilislækni

Sveinn Arnarsson skrifar
Að mati forstjóra Heilbrigðisstofnunar Norðurlands þarf að ráða fimm heilsugæslulækna.
Að mati forstjóra Heilbrigðisstofnunar Norðurlands þarf að ráða fimm heilsugæslulækna. vísir/völundur
Heimilislæknar á Akureyri eru ekki nægilega margir til að allir íbúar bæjarins geti fengið sinn heimilislækni. Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, segist ekki vita hversu margir Akureyringar eru án heimilislæknis en þeir séu talsvart margir.

„Þetta er vandamál okkar á Akureyri að það eru ekki nógu margir fastráðnir læknar við störf á heilsugæslunni í bænum. Við þyrftum að vera með um þrettán lækna en erum einungis með sjö lækna nú. Þetta vandamál hefur verið viðloðandi í nokkuð langan tíma en við vonum að við getum ráðið í stöður til að bæta ástandið.“ segir Jón Helgi.

Fastráðnum læknum á Akureyri hefur fækkað á Akureyri að sögn Jóns Helga og hafa námslæknar verið áberandi á heilsugæslunni. Í lok síðasta árs var heilsugæslan færð frá sveitarfélagi til ríkisins.

„Það er erfitt að ráða fasta lækna alls staðar, ekki bara á Akureyri,“ segir Jón Helgi. „Hins vegar vonum við að þeir námslæknar sem koma til okkar vilji vera áfram og því bindum við vonir um að snúa þessu við og höfum góðar vonir um að eitthvað af þeim læknum fari í fastar stöður hjá okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×