Innlent

Vilja skipta kostnaði milli ríkis og bæjar

Sveinn Arnarsson skrifar
Sjúkrahúsið á Austurlandi er á Norðfirði og flugvöllurinn því mikilvægur.
Sjúkrahúsið á Austurlandi er á Norðfirði og flugvöllurinn því mikilvægur. fréttablaðið/pjetur
Flugvöllurinn á Norðfirði er ónothæfur stóran part úr ári og þyrfti að malbika hann til að hann gæti nýst sem sjúkraflugvöllur og flýtt för sjúklinga til Reykjavíkur til frekari læknismeðferðar. Jens Garðar Helgason, formaður bæjarráðs, segir lítið þurfa að gera svo flugvöllurinn geti sinnt sínu hlutverki nægilega vel.

„Við höfum boðið innanríkisráðuneytinu að skipta kostnaði við malbikun til helminga þannig að sveitarfélagið greiði helming kostnaðar við verkið. Nú er lag þar sem verktakar eru á svæðinu vegna hafnarframkvæmda sem og við gangagerð sem geta unnið þetta hratt og örugglega,“ segir Jens Garðar.

Uppbygging Norðfjarðarflugvallar er ekki á dagskrá samkvæmt samgönguáætlun sem Ólöf Nordal innanríkisráðherra lagði fyrir þingið í lok maí. Nú er áætlunin í meðförum samgöngunefndar þingsins og gæti tekið breytingum þar.

Jens Garðar segir flugvöllinn skipta miklu máli fyrir öryggi allra íbúa Austurlands. „Það sem skiptir máli er að tryggja sem öruggastan flutning sjúklinga frá Neskaupstað, þar sem fjórðungssjúkrahúsið er staðsett, og koma þeim til Reykjavíkur. Flugvöllurinn á Norðfirði skiptir þannig miklu máli fyrir okkur íbúana,“ segir Jens Garðar.

Ólöf Nordal, ráðherra samgöngumála, vildi ekki veita viðtal við vinnslu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×