Skoðun

Frumskylda að verja lífskjör almennings

Þórunn Egilsdóttir og Willum Þór Þórsson skrifar
Frumskylda stjórnvalda er að verja þjóðarhagsmuni og huga að hagsmunum heildarinnar.

Framsóknarflokkurinn var eini flokkurinn sem þorði að taka afgerandi afstöðu og lýsa því yfir í aðdraganda kosninga að hægt væri að fara þá leið sem boðuð hefur verið við losun hafta. „Ríkið hefur tækin sem þarf til þess að ná þeirri niðurstöðu sem er ásættanleg fyrir Ísland,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson meðal annars þegar hann svaraði fréttamönnum fyrir kosningar hvers vegna hann gæti einn haldið þessu fram. Enginn annar flokkur taldi sig geta skapað þetta svigrúm.

Afnám hafta er mikilvægasta verkefni ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og lýtur allt að því að gæta hagsmuna íslenskra heimila, verja efnahagslegan stöðugleika og byggja þjóðfélagið upp til framtíðar. Lagður er grunnur að betri afkomu sem hefur víðtæk áhrif án þess að raska efnahagslegum stöðugleika. Bjartari horfur eru framundan.

Í kjölfar hruns íslenska fjármálakerfisins tók þorri Íslendinga á sig verulegan skell vegna gengisfalls íslensku krónunnar og kaupmáttarskerðingu í framhaldi af því. Þjóðin mun ekki taka á sig frekari byrðar því markmið aðgerða stjórnvalda er að kollsteypan sem hér varð endurtaki sig ekki. Sú kollsteypa er ekki valkostur.

Stöðugleikinn er stærsta hagsmunamál þjóðarinnar. Ráðist er að rót vandans til verndar raunhagkerfinu og efnahagslegri velferð almennings á Íslandi. Áætlun stjórnvalda nú við losun hafta boðar lausn á greiðslujafnaðarvanda þjóðarbúsins án þess að ógna efnahagslegum stöðugleika.

Stöðugleikaskilyrði og stöðugleikaskattur skapa ramma til þess að hægt sé að mæta kröfum íslensku þjóðarinnar. Árlegar vaxtagreiðslur ríkissjóðs munu lækka um tugi milljarða króna á ári. Aðgerðirnar eru forsenda þess að hægt verður að losa höftin, skapa svigrúm til að greiða niður skuldir ríkissjóðs og tryggja hagsmuni almennings til framtíðar.

Afnám fjármagnshafta er mikilvægasta hagsmunamál þjóðarinnar. Það hagsmunamál er í góðum höndum.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×